Í síðustu viku hélt Davíð Oddsson forsætisráðherra ræðu á viðskiptaþingi Verzlunarráðs Íslands og sagði þar meðal annars að skoðun sín væri sú, að nú væri færi á því að lækka skatta borgaranna myndarlega. Sagðist ráðherrann vilja hafa forgöngu um slíka skattalækkun á næsta kjörtímabili og hlýtur það fyrirheit að vera fagnaðarefni fyrir alla skattgreiðendur, hvar í flokk sem þeir hafa skipað sér. Reyndar tóku ekki allir skattgreiðendur þessum orðum með fögnuði, og fáir með minni fögnuði en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nokkur, sem gaf ekkert fyrir þau. Hún taldi Davíð hafa haft nægan tíma til að lækka skatta en hefði bara aldrei haft neinn áhuga á því. Eða svo vitnað sé í óbreytt meitluð orð hennar: „Ja, þetta er náttúrulega óneitanlega greinilega hugsað sem dálítil skammtímaáhrif af þessu, það er að segja fram yfir næstu kosningar“ og þarf víst fáu við það að bæta, eða hvað?
Ekki þarf að taka fram að fréttamenn ljósvakamiðlanna sendu þessar fullyrðingar Ingibjargar Pandóru út án nokkurra athugasemda eða spurninga af sinni hálfu. Þó er það svo, að um þessi orð Ingibjargar gildir það sama og um flest sem hún hefur haft fram að færa undanfarnar vikur: þegar fullyrðingar hennar eru skoðaðar þá stendur ekki steinn yfir steini. Núverandi forsætisráðherra hefur árum saman unnið að því að lækka skatta á landsmenn. Og er þá ekki aðeins átt við verulegar lækkanir á sköttum fyrirtækja sem hafa gríðarlega mikil og góð áhrif á atvinnuástand á Íslandi og frumkvæði fyrirtækja, nei þó fréttamenn hafi gleymt því og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vilji ákaft að flestir gleymi því, þá hafa stjórnvöld einnig lækkað tekjuskatt landsmanna. Og af hverju skyldu fréttamenn hafa gleymt því og af hverju skyldi Pandóra endilega vilja að allir aðrir gleymi því líka?
Ætli að verið geti að skýringin sé sú að þegar ríkisstjórnin hefur lækkað tekjuskattshlutfallið þá hafa borgaryfirvöld hlaupið til og hækkað útsvar borgarbúa að sama skapi? Ætli verið geti að Pandóra óttist að það rifjist upp fyrir kjósendum að ekki einungis hefur ríkisstjórnin lækkað skatta en borgarstjórnin hækkað þá, heldur reyndi R-listinn að fela skattahækkanir sínar með því að láta þær koma til framkvæmda um leið og ríkið lækkaði sína skatta? Ætli skýringin á gleymsku allra fréttamanna sé sú að skattar borgaranna lækkuðu aldrei vegna þessarar aðferðar borgaryfirvalda? Ætli það sé skýringin á því að Ingibjörg Pandóra Gísladóttir treystir sér til að koma hnarreist í sjónvarpsviðtöl og fullyrða að maðurinn sem hún hatar út af lífinu hafi aldrei haft neinn áhuga á því að lækka skatta?