MADURINNMEDLJAINNÞeir eru ekki margir sem uppskera óvænt og óverðskuldað eftir að maðurinn með ljáinn hefur farið um. Ríkissjóður er hér um bil einn um það. Hann innheimtir nefnilega erfðafjárskatt. Þeir sem missa foreldra sína og erfa íbúðarkytru þeirra og sumarskúr sem metin eru af hinni ýturvöxnu ríkisstofnun Fasteignamati ríkisins á samtals 10 milljónir króna þurfa að gjalda fyrir það með nær einni milljón króna. Foreldrar sem missa framtakssamt barn sitt og erfa eftir það 50 milljón króna fyrirtæki mega eiga von á gíróseðli frá ríkissjóði upp á 12 milljónir króna. Afasystir og nánasti ættingi mannsins sem stofnaði og bauð út hlutafé í veffyrirtækinu cashbydeath.com við góðar viðtökur hefði þurft að reiða fram 45% af 10 milljónunum sem nafnvirði hlutafjár stofnandans hljóðaði upp á ef vefbólan hefði ekki verið sprungin nokkrum vikum fyrir andlát frumkvöðulsins.
Með öðrum orðum er þessi erfðafjárskattur þannig að því fleiri sem hrökkva upp af því meiri tekjur hefur ríkið af honum. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir að ríkissjóður nái 800 milljónum króna af þeim sem missa ættingja sína.
Vafalaust eru einhverjir sem halda því fram að skattur þessi sé réttlátur vegna þess að hann jafni kjör manna. Þó er engin regla um það hve vel stæðir erfingjar eru eða hversu mikið hver þeirra fær í sinn hlut. Jöfnunarhlutverk hans fer því fyrir ofan garð og neðan. Skattur þessi er að auki í raun skattur á sparnað en sparnaður er nauðsynlegur til að lánsfé liggi á lausu. Erfðafjárskatturinn, eins og aðrir eignarskattar, letur menn sem eiga eitthvað aflögu til að leggja það til hliðar og lána öðrum sem þurfa fé í húsbyggingar, bílakaup, nám og atvinnurekstur. Hann hvetur eignafólkið frekar til eyðslu en að lána öðrum fé sitt. Hann hvetur ríka fólkið þannig til aukinnar eyðslu sem gerir muninn á þeim og hinum sem minna eiga enn sýnilegri. Ekki er það í þágu aukins „jöfnuðar“ í þjóðfélaginu.