Mánudagur 3. mars 2003

62. tbl. 7. árg.
„Eitt af því, sem forystumenn Sjálfstæðisflokksins óttuðust, að gæti haft áhrif til hins verra voru sérkennileg skrif Mánudagsblaðsins síðustu vikurnar fyrir kosningar, en þær fóru fram sunnudaginn 31. maí. Mánudagsblaðið tók skyndilega að koma út í mjög stóru upplagi, og því var dreift í hvert hús í borginni, og þess voru dæmi, að því væri dreift meðal áhorfenda að knattspyrnuleikjum. Það var þó ekki þessi skyndilega magnaukning blaðsins, sem varð sjálfstæðismönnum áhyggjuefni, heldur málflutningur þess, sem vakti mikla athygli og erfitt var að kveða niður meðal annars vegna þess að blöðum á borð við Mánudagsblaðið er að öllum jafnaði ekki svarað. En nú var auðséð, að fjársterkir aðilar stóðu að útgáfu blaðsins og að pólitískir huldumenn, jafnvel úr Sjálfstæðisflokknum, rituðu í blaðið. Vitað var, að eigandi og ábyrgðarmaður blaðsins var í leyfi erlendis á þessum tíma, en hann er sem kunnugt er Agnar Bogason. Var síðar upplýst að umsjón með blaðinu þessar vikur hafði Hallur Símonarson, sem nú er blaðamaður á Dagblaðinu. Hann kom hins vegar ekki nálægt fjárhagshlið blaðsins, og skrif þess voru ekki heldur nema að óverulegu leyti hans verk; heldur aðeins umsjón og uppsetning. Kostnaðurinn var greiddur af Guðmundi Kristjánssyni, kaupmanni í versluninni Krónunni, sem er nú látinn. En þannig stóð á því, að kona hans, Elín Guðjónsdóttir, skipaði þriðja sæti á lista Alþýðuflokksins við borgarstjórnarkosningarnar. Var blaðinu mjög beitt til að vinna að framboði Alþýðuflokksins og til að ala á óeiningu innan Sjálfstæðisflokksins. Er vitað, að frambjóðendur flokksins skrifuðu í blaðið, að minnsta kosti þeir Björgvin Guðmundsson og Árni Gunnarsson. Að öðru leyti er ekki vitað, hverjir skrifuðu í blaðið, og mun sennilega aldrei verða upplýst, enda vilja flestir þeir, er þar komu nálægt, gleyma sínum hlut í þessari „kosningabaráttu“ Alþýðuflokksins þessa vordaga.“

The history book on the shelf, is always repeating itself, söng Abba árið 1974 og vann Eurovision. Já og er ekki stundum eins og sagan gangi í hring, og þá ekki bara það góða úr sögunni? Kannast menn kannski við það að þrjátíu ára gömul herleiðing Mánudagsblaðsins, í þágu eins stjórnmálaflokks en ekki síður persónulega gegn forystu annars, endurtaki sig? Hver eru aðalatriðin í lýsingunni hér að ofan? Skyndilega var farið að dreifa blaði nokkru í hvert hús í borginni. Að nafninu til hafði blaðið skráðan eiganda en hann kom ekkert nálægt útgáfunni. Annar maður, síðar blaðamaður á Dagblaðinu, var síðar sagður hafa umsjón með blaðinu en hafði í raun lítið um það að segja þó hann væri skráður fyrir sumum skrifum. Kostnaður við útgáfuna var í raun greiddur af fjársterkum kaupmanni sem með þessu móti freistaði þess að kaupa krötum fylgi en ráðast að forystu Sjálfstæðisflokksins. – Og geta menn nú velt fyrir sér hvort einhver líkindi séu til þess að einhverjir hafi horfið 30 ár aftur í tímann í leit að baráttuaðferðum. The history book on the shelf, is always reapeting itself.

Mikið væri nú gaman ef það væri aðeins það ánægjulega úr sögunni sem gengi aftur. Að það væru gamlir kunningjar sem skytu upp kollinum en ekki eitthvað sem flestir hlutaðeigandi vildu strax gleyma. En það er víst ekki hægt að fara fram á það. Og það er ekki aðeins mánudagsblaðsaðferðin sem virðist hafa eignast lítið systkini í kosningabaráttunni tvöþúsund og þrjú. Árið 1971 var gengið til alþingiskosninga og reyndust þær verða endalok viðreisnartímans svo kallaða, en á síðustu 12 árum fyrir þær kosningar hafði viðreisnarstjórnin jafnt og þétt létt hömlum af borgurunum og gert þjóðlífið frjálsara. Nægilega margir kjósendur ákváðu þetta vor að breyta til og hafði það þær afleiðingar að vinstri stjórn komst til valda með venjulegum afleiðingum. Hugsanlega hefur þar átt töluverðan hlut að máli, að eftir 12 ára viðreisnarstjórn voru fjölmargir kjósendur sem vart þekktu til vinstri stjórna og töldu jafnvel að þeim gæti verið hreint eins vel treystandi og öðrum stjórnum. Í nýlegum pistli á heimasíðu sinni fjallar Björn Bjarnason, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, lítillega um þessa tíma og má vera að einhverjum detti í hug við lesturinn að það sé magnað hve sagan geti tekið upp á því að ganga í hring:

„Hvarvetna er viðurkennt, að staða efnahagsmála þjóðarinnar sé eins og best verði kosið. Þannig segir í forsendum fyrir þriggja ára áætlun um rekstur, framkvæmdir og fjármál Reykjavíkurborgar árin 2004 til 2006: „Fullyrða má að þjóðarbúskapurinn sé í betra jafnvægi nú en um langt árabil.“

Öllum almenningi er ljós hinn mikli og góði árangur, sem hefur náðst á undanförnum árum undir forystu Sjálfstæðisflokksins, ekki síst við stjórn efnahagsmála. Við blasir einnig, að með ákvörðunum um virkjanir við Kárahnjúka, álver í Reyðarfirði og nú með samningi um stækkun álvers Norðuráls í Hvalfirði hefur verið lagður grunnur að miklu framfaraskeiði næstu ár.

Að þessu leyti minnir staðan á ástandið á svipuðum tíma árið 1971, þegar gengið var til kosninga eftir 12 ára viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks og tekist hafði að sigrast á efnahagserfiðleikunum 1967 og 1968 og treysta innviði efnahagskerfisins, meðal annars með Búrfellsvirkjun og álverinu í Straumsvík.

Í kosningunum 1971 tóku kjósendur ákvörðun um að breyta og mynduð var vinstri stjórn að þeim loknum undir forsæti Ólafs Jóhannessonar. Hún stofnaði til opinberra útgjalda og eyðslu, kynti undir verðbólgu og aðhaldsleysi, svo að ekki tókst að nýta hið einstaka jafnvægi í þjóðarbúskapnum sem skyldi. Má jafnvel segja, að það hafi tekið þjóðina 20 ár að vinna sig út úr þeim hremmingum, eða þar til mynduð var ríkisstjórn undir forsæti Davíðs Oddssonar sumarið 1991.

Niðurstöður kannana um þessar mundir má túlka á þann veg, að vilji margra standi til þess eins að breyta, breytinganna vegna. Vert er að minna þá á, að veldur hver á heldur. Stjórn fjármála Reykjavíkurborgar hefur til dæmis ekki átt neinn sérstakan þátt í því að skapa jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Eins og nú hefur verið staðfest af nýjum borgarstjóra hafa skuldir Reykjavíkurborgar vaxið að minnsta kosti um 389% frá 1994 til ársloka 2002 – 1100% ef miðað er við árslok 1993 til ársloka 2003. Á sama tíma hefur ríkissjóður lækkað skuldir sínar um 13%, nýtt góðærið til að létta á skuldabyrðinni í stað þess að auka hana.

Sé vilji til þess að nýta hið góða jafnvægi í þjóðarbúskapnum og þau tækifæri, sem eru framundan, er ekki skynsamlegt að taka þá áhættu, sem felst í því að fela hinni ábyrgðarlitlu Samfylkingu forystuhlutverk í stjórnmálum þjóðarinnar.“

Já, hugsanlega finnst ýmsum sem hætta – eða von – sé á að nægilega margir kjósendur geri það sama og gert var fyrir þrjátíu árum. Að eftir það sem í raun hefur verið tólf ára sókn til aukins frelsis og gríðarlegra framfara verði vinstri menn skyndilega leiddir til valda. Það væri þá skemmtilegt eða hitt þó heldur, myndi frjálslynt fólk væntanlega segja, en vegir lýðræðisins verða auðvitað seint skýrðir til fulls. Kannski er best að nota söguna til spádóma, því hún gengur stundum í hringi. Að minnsta kosti má sjá ýmis líkindi með lýsingu Björns Bjarnasonar og ástandi íslenskra stjórnmála í dag. Og það má einnig sjá nokkur líkindi með ástandi íslenskra fjölmiðla í dag og því sem lýst var í tilvitnuninni hérna efst. Já og það var víst ekki búið að taka fram hvert hún var sótt. Hún er tekin úr ágætri bók, Valdatafli í Valhöll, eftir Anders Hansen og Hrein Loftsson.