Þriðjudagur 10. október 2000

284. tbl. 4. árg.

Vef-Þjóðviljann langar til að biðja þingmenn stjórnarandstöðunnar um að hugsa sér að hér væri 100% skattur á tekjur undir 100 þúsund krónum á mánuði. Teldu þeir það þá sérstakan styrk til þeirra sem hafa undir 100 þúsund krónum ef þessi skattur yrði lækkaður? Myndu þeir kalla það sérstakan styrk til þeirra sem fara út í búð ef virðistaukasskattur yrði lækkaður úr 24,5% í segjum 15%?

Ástæðan fyrir því að Vef-Þjóðviljinn vill hvetja þingmenn stjórnarnandstöðunnar til þess að íhuga þetta er sífellt mal þeirra um að ríkið hafi „styrkt“ kaupendur „forstjórajeppanna“ með því að lækka vörugjöld á stórum bílum fyrir skömmu. Í þessum málflutningi stjórnarandstæðinga felst sú skoðun að ríkið eigi allt sem þú aflar og það sem ríkið hirðir ekki af þér þegar í stað með sköttum sé sérstakur styrkur ríkisins til þín. Og það sem meira er, í honum flest einnig að þar sem skattar eru lægstir eru ríkisstyrkir væntanlega mestir! Þeir þingmenn stjórnarandstöðunnar sem hrifnastir eru af hvers kyns ríkisstyrkjum ættu því að athuga þann möguleika að fella niður alla skatta og gera Ísland þar með að mesta ríkisstyrkjalandi veraldar að þeirra mati.