Hlutfall útgjalda hins opinbera og iðgjalda lífeyrissjóða af vergri landsframleiðslu fyrir árið 1999 var um 41%. Ef við miðum við þessa tölu hefur sjálfsaflafé okkar frá áramótum og fram í síðustu viku, þegar 41% af árinu var liðið, allt farið í skatta og skyldugreiðslur. Það blasir raunar við að landsmenn vinna fyrir lögboðnum greiðslum (sköttum) enn stærri hluta ársins en þessi 41% þar sem ýmis kostnaður sem hið opinbera leggur á okkur kemur ekki fram í þessum einfalda útreikningi. Ýmsir hafa til dæmis talið að við séum eina til tvær vikur að vinna fyrir þeim innflutningshöftunum sem ríkið leggur á okkur þar sem kostnaður við höftin nema 10 – 20 milljörðum króna á ári.
Það er fróðlegt að bera þennan reiknaða hlut hins opinbera saman við annað sem við verjum fé okkar í. Skífan hér að neðan sýnir skiptingu útgjalda heimilanna. Neysluskiptingin byggir á vísitölugrunni Hagstofu Íslands (nýr gefinn út í mars 1997). Skattar eru langstærsti útgjaldaliður heimilanna og þegar fólk fer yfir heimilisbókhaldið sér það auðvitað að það getur aukið ráðstöfunartekjur sínar verulega með því að draga úr skattgreiðslum. „Svört“ atvinna og önnur undanbrögð gagnvart skattinum koma því ekki á óvart.