Þriðjudagur 7. desember 1999

341. tbl. 3. árg.

Valdablokkir riðlast - eftir Óla Björn Kárason
Valdablokkir riðlast – eftir Óla Björn Kárason

Valdablokkir riðlast heitir bók eftir Óla Björn Kárason ritstjóra DV og stofnanda og fyrrverandi ritstjóra Viðskiptablaðsins. Bókin er nýkomin út hjá Nýja bókafélaginu. Í bókinni fjallar Óli Björn um öll helstu svið íslensks atvinnulífs og þær breytingar sem átt hafa sér stað, aðallega frá því um miðjan síðasta áratug. Hann rekur t.d. þær breytingar sem urðu við fall Sambands íslenskra samvinnufélaga, en ótrúlegt er til þess að hugsa að ekki er nema um áratugur frá því Sambandið var risi í íslensku efnahagslífi. Við þessa breytingu og ekki síður þá breytingu sem orðið hefur á efnahagsumhverfinu og fjármálamarkaðnum má sjá að atvinnulífið á Íslandi er orðið gjörbreytt frá því sem var fyrir einum áratug eða svo. Meira frjálsræði ríkir nú en áður, þátttaka almennings er mun meiri en áður var og nýir athafnamenn hafa skotið upp kollinum. Allt er þetta rakið í bókinni, bæði að því er snertir sjávarútveg, bankakerfi, fjölmiðla og fleiri svið.

Óli Björn greinir lesandanum frá því strax á fyrstu síðu bókarinnar að hann hafi alla tíð aðhyllst frjálst markaðshagkerfi. Hann nefnir oft í bókinni jákvæðar afleiðingar aukins frelsis í viðskiptum en gagnrýnir einnig hömlur sem ríkið setur enn á viðskipti. Sem dæmi má nefna að hann gagnrýnir lagabreytingu frá því í fyrra sem kveður á um hámarkskvótaeign aðila í sjávarútvegi. Telur hann að með þessu sé „sjávarútvegurinn settur í spennitreyju sem á eftir að kosta íslenskt efnahagslíf verulega fjármuni“.

Þá finnur Óli Björn að því að sumir stjórnmálamenn og jafnvel heilu flokkarnir nærist á öfundinni. „Þeir eiga mikið undir því að sá fræjum öfundar og tortryggni með fremur innantómum slagorðum. Þá er hátt talað um meint skattsvik fyrirtækja og þess strengd heit að ná sökudólgunum, loka fyrirtækjunum með valdi – fara í krossferð gegn atvinnurekstri. Þegar kemur að því að styrkja undirstöður og efla íslenskt atvinnulíf verður minna úr verki.“ Þó höfundur nefni engin nöfn í þessu sambandi er ekki ólíklegt að hann hafi t.d. haft Ólaf Ragnar Grímsson fyrrum fjármálaráðherra í huga, en hann gekk afar hart fram í lokunaraðgerðum í ráðherratíð sinni og lét fyrirtæki landsins og stjórnendur þeirra ósjaldan fá það óþvegið áður en hann gerðist húsbóndi að Bessastöðum.

Umfjöllun Óla Björns um samkeppnismál og afskipti hins opinbera af meintri óeðlilegri samþjöppun er athyglisverð. Hann bendir á að ekki sé „hægt að búa til mælistiku sem mælir rétta stærð fyrirtækja, – mælistiku sem segir til um það hvort fyrirtæki eru of stór eða ekki. Jafnvel þótt fyrirtæki sé leiðandi í verðsetningu, sem keppinautarnir fara eftir, er ekkert sem bendir til að hægt sé að grípa til aðgerða sem eru í samræmi við hugmyndir frjálslyndra manna og takmarka völd fyrirtækisins.“ Hann hefur greinilegar efasemdir um afskipti samkeppnisyfirvalda af atvinnulífinu, enda ekki að undra þar sem þau hafa farið offari hér á landi sem annars staðar.

Bókin Valdablokkir riðlast er ekki hnökralaus frekar en önnur verk, í henni er t.d. gert ráð fyrir að af sameiningu Ísfélags Vestmannaeyja, Vinnslustöðvarinnar, Krossaness og Óslands hafi orðið, en upp úr þeim viðræðum slitnaði á dögunum. Þetta breytir þó ekki því að bókin er bæði gagnleg og skemmtileg aflestrar og er fengur í henni fyrir áhugamenn um íslenskt atvinnulíf.