Laugardagur 10. júlí 1999

191. tbl. 3. árg.

Vefþjóðviljinn minntist í fyrradag á þann vilja margra þeirra, sem lokið hafa prófi í „uppeldis- og kennslufræði“, að ekki geti aðrir kallað sig kennara. Reyna þeir að sannfæra fólk um að þeir kennarar sem ekki hafa lokið þessu prófi séu í raun engir kennarar, í hæsta lagi „leiðbeinendur“ sem eingöngu megi notast við í neyð þegar svo illa tekst til að enginn uppeldishámenntaður fæst til starfa þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar. Fyrir nokkrum árum tókst þessum hópi að fá samþykkt ein lögverndunarlögin enn sem veittu þeim einkarétt til að kalla sig framhaldsskólakennara. Frá þeim degi hafa margir trúað því að ekki geti aðrir kennt. Skólastjórnendum er í lögum gert erfitt að fá aðra til starfa og atvinnuöryggi „leiðbeinandanna“ er næstum ekkert því þeir verða aðeins ráðnir til árs í senn og þurfa að víkja fyrir hinum hámenntuðu mönnum með uppeldisprófið. Vart þarf að taka fram að menntamálaráðherra hefur ekkert áþreifanlegt gert til að breyta þessu.

Á dögunum voru kynntar niðurstöður samræmdra prófa grunnskólanna. Kom þar fram að nemendur Reykholtsskóla í Biskupstungum náðu bestum árangri nemenda á Íslandi. Af því tilefni ræddi dagblaðið Dagur-Tíminn við þann nemanda skólans sem hæstur varð, Daníel Mána Jónsson. Daníel var þakklátur kennurum sínum og sagði „valið fólk í hverri kennarastöðu í Reykholti, jafnt réttindakennarar sem leiðbeinendur.“ Blaðið sagði þá að algengt væri að „leiðbeinendum“ væri kennt um ef nemendur stæðu sig illa í skólum. Um það sagði Daníel: „Það var t.d. leiðbeinandi sem kenndi bæði enskuna og dönskuna í 10. bekk í vetur – tvær af fjórum samræmdu greinunun. Þessi leiðbeinandi er reyndar sóknarpresturinn í Skálholti. Það má ekki kenna kennurunum um allt sem miður fer – ég er alveg ósammála því.“