Eins og Vef-Þjóðviljinn vék að á föstudaginn var framlag sumra frambjóðenda og stuðningsmanna Fylkingarinnar til kosningabaráttunnar afar undarlegt. Þetta á ekki síst við í Reykjavík. Engu er líkara en Össur Skarphéðinsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi meðvitað spillt fyrir Fylkingunni. Bæði áttu þau afar undarleg upphlaup um hugsanlega aðild Íslands að ESB í miðri kosningabaráttunni. Mátti þó Fylkingin síst við því að stefna hennar í utanríkismálum yrði gerð ruglingslegri. Össur átti mestan þátt í því að farið að að tala um Fylkinguna sem tifandi tímasprengju í efnahagsmálum og nokkrum dögum fyrir kjördag eru fjórir þroskaheftir einstaklingar reknir úr störfum sínum hjá Reykjavíkurborg. Og af hverju hlakkar nú í Össuri yfir því að Framsóknarflokkurinn missti þrjá þingmenn? Var ekki nauðsynlegt að Framsóknarflokkurinn héldi þingstyrk sínum til að möguleiki væri á ríkisstjórn Fylkingar og Framsóknarflokks?
Þótt úkoma Fylkingarinnar í kosningunum á landinu öllu sé skást í prósentum í Reykjavík er ljóst Fylkingin stefndi að því að mikið fylgi í Reykjavík og á Reykjanesi lyfti fylginu yfir 30% á landsvísu. Í Reykjavík ræddu fylkingarmenn um tíma að 10. sætið væri baráttusæti en fengu 5 menn kjörna og á Reykjanesi féll Ágúst Einarsson af þingi. Í báðum kjördæmunum var fylgið vel undir 30%. Í þriðja fjölmennasta kjördæminu, Norðulandi eystra var fylgi Fylkingarinnar undir 20% og hvergi á landinu fór það yfir 30% markið, jafnvel ekki í kjördæmi talsmannsins þar sem Vinstri grænir voru veikir fyrir. Fréttamönnum var þó tíðrætt um að Margrét Frímannsdóttir hefði unnið einhvers konar sigur á Suðurlandi þótt það blasi við að jafnvel þar sem VG átti lítinn hljómgrunn var útkoma Fylkingarinnar slök.
Eftir kosningarnar er Margrét Frímannsdóttir formaður Alþýðubandalagsins orðinn formannslíki í stækkuðum Alþýðuflokki. en fyrrverandi varaformaður Alþýðubandalagsins orðinn formaður í smækkuðu og grænu alþýðubandalagslíki Breytir þetta einhverju um stöðuna á vinstri væng stjórnmálanna? Ekki í fljótu bragði séð. Að einu leyti kann þó að hafa orðið verulegur umsnúningur. Fylkingin eyddi áður óþekktum fjárhæðum í kosningabaráttuna. Það gerði Vinstri hreyfingin grænt framboð ekki. Ef til vill hefur Steingrími og félögum ekki aðeins tekist að losa flokk sósíalista á Íslandi við nokkra villuráfandi sauði heldur eru sósíalistarnir einnig lausir við þær skuldir sem Alþýðubandalagið hafði sankað að sér og eru um 40 milljónir króna í dag en það er líklega svipuð upphæð og Fylkingin eyddi í kosningabaráttuna. Steingrímur Sigfússon tapaði fyrir Margréti Frímannsdóttur í formannsslag í Alþýðubandalaginu fyrir nokkrum árum. Nú er hann orðinn formaður í flokki sem er sambærilegur við Alþýðubandalagið að flestu leyti nema því að þar eru engar 40 milljónir í mínus.