Breytingar í náttúrunni eru umhverfisverndarsinnum jafnan tækifæri til að hrópa úlfur, úlfur: Ef fiðrildi færir sig ofar í fjallshlíð, fluga færir sig norður á bóginn, flóð skella á, þurrkar herja á, íshella hrekkur í sundur eða frost eru óvenju hörð bendir það að þeirra sögn til hlýnunar vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum. Þessar breytingar eru þeim því jafnan kærkomið tækifæri til að hrella almenning og afla fjár. Gott og vel. Með þessu er umhverfisverndarsinnar einfaldlega verið að segja að staðbundnar breytingar eigi sér skýringar í hnattrænum breytingum.
Það hefur hins vegar farið í taugarnar á heitustu stuðningmönnum aukinna gróðurhúsaáhrifa að þegar Eiríkur rauði og aðrir víkingar settust að á Grænlandi og fóru víðar um Norður-Ameríku var hlýrra á þessum slóðum en nú er. Ekki verður með góðu móti hægt að kenna (eða þakka) umsvifum mannsins um þessi hlýindi. Enda kólnaði aftur á miðöldum og svonefnd litla ísöld gerði sennilega útaf við byggðir norrænna manna á Grænlandi, snjólínur færðust niður um mörg hundruð metra í Ölpunum og haldnar voru vetrarhátíðir á ísi lagðri Thames á. Nú hafa umhverfisverndarsinnar hins vegar kynnt til sögunnar kenningu um að þessi hlýindi og kólnunin síðar hafi verið staðbundin en eigi sér ekki hnattrænar skýringar.
Umhverfisverndarsinnar eru sem sé að segja okkur að hitabreytingar geti verið staðbundnar og tengist ekki magni gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Að minnsta kosti ekki nema þegar þeim hentar!