Það er athyglisvert að kíkja inn á nýja heimasíðu Ágústs Einarsonar. Til að mynda er umræða hans um bankamálin alveg ævintýraleg. Án þess að hann geti heimilda eða raka eru samkvæmt honum engar ærlegar hvatir að baki nokkru sem stjórnarflokkarnir stefna að í því efni, heldur eru valda- og fégræðgi eina ástæðan sem rekur menn áfram. Það er greinilegt að þegar staðreyndir í kenningasmíðinni þrýtur getur Ágúst ekki miðað við annað en sjálfan sig og vini sína.
Eins vekur athygli þegar hann segir (í hinu nýstárlega orðasafni sínu um sjávarútveg) að menntun, sérstaklega háskólamenntun, sé allt of lítil meðal starfsfólks í sjávarútvegi. Hans helsta stefna í sjávarútvegsmálum er sem kunnugt er leggja um 20 milljarða króna nýjan skatt á sjávarútveginn. Eftir að sú aðgerð hefur verið innt af hendi sér Ágúst væntanlega fyrir sér að sjávarútvegur taki að blómstra sem aldrei fyrr, byrji að greiða mun hærri laun en áður og hefji með gylliboðum að lokka til sín sprenglærða spekinga í lange baner. Það væri gaman að fletta þeirri rekstrarhagfræðibók sem hann las í sínu námi.
Reyndar vantar vinsælasta hugtak hans, gjafakvótann, inn í safnið. Miðað við lýsingar hans á siðleysi því sem arður af hinum svívirðilega gjafakvóta gefur af sér mætti ætla að honum þætti persónulega nokkuð sárt að taka árlega við slíkum arði, og það drjúgum skammti. Væntanlega er þá stutt í að hann gangi fram fyrir skjöldu og skili svo illa fengnu fé til réttbærra aðila, sem fyrir meðalgöngu hins milda og örláta ríkisvalds munu njóta lærri álagna, meiri þjónustu og ábyggilega betra veðurs líka.
Vefþjóðviljinn hefur miklar mætur á hógværð. Því er ekki vegi að birta hér nokkrar umsagnir Ágúst um sjálfan sig og finna má á heimasíðu hans en þar hefur Ágúst stigið út úr eigin sjálfi og ávarpar sjálfan sig í þriðju persónu: Fjölbreyttur starfsferill: Ágúst Einarsson er athafnamaður og hefur víðtæka reynslu af stjórnun í atvinnulífinu, sérstaklega í sjávarútvegi. Hans sérgrein er rekstrarhagfræði og er hann prófessor við Háskóla Íslands á því sviði. Í stjórnmálum hefur ekki verið lognmolla í kringum Ágúst heldur hefur hann barist ötullega fyrir málstað jafnaðarstefnunnar og sameiningu jafnaðarmanna á ýmsum vettvangi.
Á dögunum sættu Bandaríkjamenn og Bretar sig við, að réttað yrði í Haag yfir Lýbíumönnunum tveimur sem sakaðir hafa verið um að hafa grandað farþegaflugvél í Skotlandi fyrir áratug. Samkvæmt fréttum í gær hefur Halldór Ásgrímsson lýst því yfir fyrir sitt leyti að hann sé sáttur við það. Það er gott hvað málið gengur vel fyrir sig. Nú þarf bara að heyra í Ghadafi og svo er hægt að hespa þessu af.