Mánudagur 7. september 1998

250. tbl. 2. árg.

Í viðtali í Lesbók Moggans á laugardaginn viðraði forseti Bandalags íslenskra listamanna þá skoðun sína að ríkið ætti að gera „samning“ við bandalagið um að ríkið veitti bandalaginu fé. Rökstuðningurinn var aðallega sá að þetta væri svo hagstætt fyrir ríkið, þar sem það yrði annars að setja á fót „menningarráð“ til að veita ríkinu leiðsögn í menningarmálum. Og ekki stóð á viðbrögðum hins opinbera. Í gær var tekin ákvörðun, í formi „samnings“ á milli menntamálaráðuneytisins og bandalagsins, um að færa fé úr vösum skattgreiðenda til bandalagsins. Þar með er ráðuneytið, samkvæmt forseta bandalagsins, búið að spara landsmönnum stórfé og nú vantar ekkert nema nokkra slíka sparnaðarsamninga í viðbót og þá geta menn hætt að hafa áhyggjur af fjárlagahalla, sparnaði í heilbrigðiskerfi og álíka leiðindum.

Hætt er þó við að niðurstaða þessa samnings verði ekki alveg svo jákvæð. Fyrir utan það auðvitað að hann er hreinn viðbótarkostnaður fyrir hið opinbera er verið að styrkja félagsskap sem hefur, ef marka má orð forseta hans, ákveðnar pólitískar skoðanir að leiðarljósi. Þessar skoðanir kallast „menningarstefna“ en að mati forsetans er menningunni ekkert óviðkomandi. Þannig segir hann að menningarstefna bandalagsins „leiti ofar“ en svo að vilja vatnsaflslón á hálendinu. Og á gagnagrunnsfrumvarpinu eiga listamenn sem slíkir líka að hafa skoðun, þótt ekki komi fram hver hún skuli vera. Fyrir utan þessi sjónarmið koma vinsælar klisjur um auðskiptingu þjóðfélagsins og fleira gómsætt, þannig að stutt virðist í að bandalagið hefji pólitíska baráttu á öllum vígstöðvum. Þegar bandalagið hefur næst upp raust sína um pólitísk málefni geta skattgreiðendur glaðst yfir að vita í hvað krónurnar þeirra fóru.

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var fjallað um skattamál Hrannars B. Arnarssonar. Ekki veit Vefþjóðviljinn hvort Eiríkur Hjálmarsson starfsmaður fréttastofunnar var hér á landinu í maí síðastliðnum en einhverra hluta vegna komst hann svo að orði, að skattamál Hrannars hefðu verið mjög til umræðu fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar og þá hefði Hrannar tilkynnt að hann tæki ekki sæti í borgarstjórn fyrr en rannsókn á hans málum væri lokið. Þó einhverjum kunni að finnast það smámál er rétt að hafa það í huga að fyrir kosningar létu forkólfar R-listans alltaf eins og allt væri í himnalagi með mál þeirra félaga Arnarssonar og Hjörvars en það var ekki fyrir daginn eftir kosningar sem Hrannar sagði sjálfur að málin væru með þeim hætti að hann tæki ekki sæti sitt í borgarstjórn, fyrr en þeim væri lokið.

Á laugardaginn kepptu tólf Íslendingar og tólf Frakkar í fótbolta í Laugardalnum. Við munum ekki greina frá úrslitunum hér en væntanlega munu þau koma fram í Morgunblaðinu strax á þriðjudaginn. Hugsanlegt er að ýmsir geti ekki beðið svo lengi en þeim til huggunar má benda á að sagt er frá gangi leiksins á heimasíðu Björns Bjarnasonar.