Miðvikudagur 2. september 1998

245. tbl. 2. árg.

Nú um daginn kom hingað til lands starfsmaður erlends kvikmyndafyrirtækis og gekk á fund ráðherra og að sjálfsögðu fjölmiðlamanna. Erindi mannsins hingað mun hafa verið það, að greina frá því að fyrirtæki það er hann vinnur hjá, væri af góðvild sinni reiðubúið að taka hér upp nokkrar kvikmyndir, gegn því að hljóta hér „skattaívilnanir“. Fóru fréttamenn svo til Þorfinns Ómarssonar framvæmdastjóra Ríkiskvikmyndasjóðs og var varla á honum að heyra að nokkurt mál í veröldinni væri mikilvægara en þetta.

Síðan þetta gerðist eru fréttamenn búnir að ræða málið við Finn Ingólfsson viðskiptaráðherra og hann segir málið „mjög spennandi“ og ætli hann að ræða það við nokkra aðra ráðherra. Nú er ekki að efa, að fjölmörgum finnst málið eflaust „mjög spennandi“. Finnur fór að tala um að þarna gæti uppáhald allra í dag, „íslenskt hugvit“, nýst og þarna  gætu íslenskir kvikmyndagerðarmenn lært eitt og annað. Hver getur nú verið á móti því? Að minnsta kosti hljómar þetta allt vel í eyrum sumra ungra Íslendinga nútímans, „frasakynslóðarinnar“: sniðug lausn, nútímaleg vinnubrögð, „íslenskt hugvit“, erlendir aðilar, skemmtanaiðnaður, gull og grænir skógar.

Nú reynir á hvort ráðherrar nenna að standa gegn slíkum upphrópanasjónarmiðum, hvort þeir halda sér við þá grundvallarstefnu að skattkerfið eigi að vera einfalt og án undanþágna. Eða hvort þeir láta  bara undan fyrir þrýstingnum og freista þess jafnvel að taka þátt í Blair-leiksýningunni, að þykjast vera sérstaklega „nútímalegir“ stjórnmálamenn með mikinn „skilning“ á „möguleikum nýrra tíma“. En ef þeir taka nú upp á því að veita þessum aðilum „skattaívilnanir“, þá  hugsanlega svara þeir því til fróðleiks, hvaða starfsemi myndi ekki „skapa atvinnu fyrir íslenskt hugvit“ ef hún hæfist hér og hví ætti þá ekki að veita öllum þeim, sem geta hugsað sér að starfa hér á landi jafnt Íslendingum sem útlendingum, „skattaívilnanir“.