Þessar vikurnar eru nokkrir lögboðnir frídagar eða helgidagar. Vafalaust hafa menn sett lög um þessa daga í góðri trú en ekki áttað sig á því að betra er að menn ráði því sjálfir hvenær þeir fara í frí. Til dæmis eru einhverjir sem frekar myndu vilja eiga eina samfellda viku í frí í stað þessara daga á stangli, svo sem uppstigningardags, sumardagsins fyrsta, 1. maí, annars í hvítasunnu og 17. júní. Eða bara að þessa daga bæri fremur upp á föstudegi eða mánudegi svo fríið nýttist betur. Það skondna er að verkalýðshreyfingin styður þessa lögboðnu frídaga sem í raun eru ekkert annað en bann við vinnu. En það kemur svo sem ekki á óvart þar sem þessi sama hreyfing styður skatt- og bótakerfi þar sem mönnum er einmitt refsað fyrir að vinna.
Það gildir einu hvaða ástæðu menn telja sig hafa til að setja lög um frí – engin þeirra stenst nánari skoðun. Trúarástæður eru vafasamar gagnvart þeim sem iðka önnur trúarbrögð eða „trúa bara einna helst á manninn“ svo nærtækt dæmi sé tekið. Þjóðlegar ástæður eins og þjóðhátíðardagurinn eru hæpnar þar sem hér er fólk af ýmsum þjóðernum. Og „dagur verkalýðsins“ er hæpinn þar sem til er fólk sem kærir sig lítið um að hlusta á ræðuhöld verkalýðsrekenda eða marxéra undir rauðum fánum.
Það er einnig misskilningur að hægt sé að fjölga frídögum með lögum án þess að nokkur kostnaður hljótist af. Það er ekki hægt fremur en að hækka laun með lögum eins og þingmenn Alþýðuflokks fóru að trúa eftir að Jón Baldvin Hannibalsson varð au pair á háum launum. Augljósasti kostnaðurinn af lögboðnum „frídögum“ er lægri laun þeirra sem vilja vinna rétt eins og lögboðnum lágmarkslaunum fylgir atvinnuleysi.