Vefþjóðviljinn 137. tbl. 20. árg.
Gjaldtaka hófst í dag á bílastæðum á Þingvöllum. Nú þurfa þeir sem nýta sér bílastæði þar að greiða fyrir þau not.
Ríkisútvarpið talaði við þrjá gesti af þessu tilefni. Tvær erlendar stúlkur sáu ekkert athugavert við þetta. Sögðust vanar slíkri gjaldtöku í sínu heimalandi og ekkert væri óeðlilegt.
En svo var talað við Íslending. Í stuttu viðtali notaði hann tvisvar orðið „skelfilegt“ um gjaldtökuna á bílastæðinu. Íslendingar hefðu fengið að heimsækja þessa gersemi „í árþúsundir án þess að borga krónu“, en nú hefði hann komið þarna með fjölskylduna og þurft að greiða fyrir bílastæði.
Svona er þetta nú. Íslendingar hafa, í þúsundir ára, komist á Þingvöll án þess að borga krónu, segir þessi gestur. En hvernig ætli hann hafi komist á staðinn? Fyrst hann var að nota bílastæðin er líklegt að hann hafi komið akandi. Eitthvað hefur bensínið kostað. Eitthvað bíllinn sjálfur. Stór hluti landsmanna býr langt frá Þingvöllum. Ekki er nú víst að það fólk telji sig og sína hafa um þúsundir ára komist úr heimahögunum á Þingvöll, sér alveg að kostnaðarlausu. Engu að síður taldi íslenski ferðamaðurinn það „skelfilegt“ að innheimt væri bílastæðagjald á Þingvöllum.
Rútufyrirtæki munu bjóða upp á ferðir á Þingvöll. Líklega kostar eitthvað í þær ferðir. Hugsanlega er það jafn skelfilegt og bílastæðagjaldið.