Föstudagur 18. september 2015

Vefþjóðviljinn 261. tbl. 19. árg.

Viðskiptabann vinstri flokkanna í borgarstjórn á almenna borgara í Ísrael, sem jafnvel eru andvígir stjórnarstefnu landsins, reyndist kveðjugjöf til Bjarkar Vilhelmsdóttur!
Viðskiptabann vinstri flokkanna í borgarstjórn á almenna borgara í Ísrael, sem jafnvel eru andvígir stjórnarstefnu landsins, reyndist kveðjugjöf til Bjarkar Vilhelmsdóttur!

Borgaryfirvöld hafa farið ótrúlega klaufalega að ráði sínu.

Meirihluti Samfylkingarinnar, Pírata, Bjartrar framtíðar og Vinstrigrænna ákvað skyndilega í vikunni að Reykjavíkurborg hæfi viðskiptaþvinganir gegn almennum borgurum og fyrirtækjum þeirra í erlendu ríki. Samþykkt borgarstjórnar um þetta hefur þegar vakið hörð viðbrögð víða um heim.

Svo kemur á daginn að jafnvel Dagur B. Eggertsson viðurkennir að málið hafi ekki verið nægilega vel undirbúið. Og hann gefur skýringu á undirbúningsleysinu. Þetta var síðasta tillaga Bjarkar Vilhelmsdóttur sem ætlaði að segja af sér og fara í sjálfboðastarf á Gaza.

Það þurfti endilega að afgreiða tillöguna samstundis, svo Björk gæti verið í fundarsalnum þegar hún yrði samþykkt. Þetta var með öðrum orðum ekki þaulhugsað innlegg í deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs. Þetta var kveðjugjöf til Bjarkar Vilhelmsdóttur.

Þetta er fullkomlega óboðlegt. Að sveitarfélag taki upp á því að lýsa opinberlega yfir viðskiptabanni gegn fólki, og geri það umhugsunarlítið vegna þess að einn sveitarstjórnarmaður í meirihlutanum sé að fara að hætta og þurfi að vera viðstaddur samþykktina, er gersamlega ótrúlegt.

Ætli einhverjum þyki þetta ekki sýna betur en margt annað hversu firrtur fjórflokkurinn er orðinn.

Borginni stýrir meirihluti Samfylkingarinnar, Pírata, Bjartrar framtíðar og Vinstrigrænna. Það er hinn raunverulegi fjórflokkur á Íslandi.