Vefþjóðviljinn 248. tbl. 19. árg.
Það kemur ekki á óvart að ráðamenn veiti almennt óljós svör um málefni útlendinga, hve margir megi setjast hér að og þá hverjir. Sanngjarnar leiðir eru ekki endilega taldar pólitískt færar.
Þær tvær leiðir sem myndu ekki mismuna þeim sem fyrir utan standa eru að hleypa öllum inn eða engum. Besta leiðin til að gera upp á milli þessara tveggja leiða er að menn velti því fyrir sér hvort þeim þætti það sjálfum eðlilegt að geta ekki sest að í öðru landi. Þeim fimmtungi Íslendinga sem flutti vestur um haf um aldamótin 1900 hefði ekki þótt gott að koma þar að lokuðum dyrum.
Á Vesturlöndum hafa menn hins vegar lengi reynt að setja upp alls kyns „málefnaleg“ skilyrði fyrir vist en þau eru ótæmandi uppspretta deilna, klögumála og átaka. Hugmyndir um að hleypa aðeins inn „góðu fólki“, „vinnusömu“ eða „vel menntuðu“ eru til marks um ofmat á hæfileikum embættismanna til að meta framtíð einstaklinga.
Víða um Evrópu starfa nú stjórnmálaflokkar sem hafa það helst á dagskrá sinni að róta í þessum málum og kynda undir gremju innfæddra vegna innflytjenda. Þessir flokkar þurfa þó ekki frekar en aðrir að svara því skýrt hvernig þeir vilji skipa þessum málum. Þeir vilja bara draga úr fjölda innflytjenda án þess þó að svara því hvernig það verði gert og hvað þá af sæmilegri sanngirni.