Þriðjudagur 7. júlí 2015

Vefþjóðviljinn 188. tbl. 19. árg.

Ásta Guðrún Helgadóttir nýr þingmaður Pírata ræddi málin í Harmageddon á X-inu í gær.

Þar var sitthvað ágætt á borð við andstöðu hennar við það að klám sé bannað.

Svo barst talið að Evrópusambandinu og því að ríkisstjórnin hefur slitið aðildarviðræðum við sambandið. Það þykir Ástu Guðrúni ekki nægilega gott því hún er stödd við störf í Brussel og þar á bæ „hefur það aldrei heyrst áður“ og hvað þá „gerst áður“ að ríki dragi aðildarumsókn til baka.

En það er ekki nóg með að Ísland veki furðu. Hitt er ekki síður alvarlegt:

Annað sem er að koma fyrir er að mörg samtök hérna á Íslandi geta ekki fengið aðgang að styrkjum lengur. Og það þarf einhvern veginn að fara framhjá því. En ef við værum ennþá bara aðildarríki eða þú veist í aðildarviðræðum eins og til dæmis Tyrkland og Sviss þá hefðum við aðgang að þessum styrkjum.

Er hægt að orða það öllu skýrar hvaða áhrif styrkirnir frá ESB hafa haft á Íslandi og umræðuna um aðildarumsóknina?

Ef til vill er þó engin þörf á þessum gríðarsterku röksemdum gegn því að Ísland hafi dregið aðildarumsóknina til baka.

Og ég vil meina að [utanríkisráðherra] hafi ekki náð að draga okkur alveg úr því það er ekki hægt, það þarf að semja sig úr.

Ísland verður sumsé í aðildarviðræðum þar til það hefur samið um annað við ESB. Einu gildir þótt fyrir því sé hvorki stuðningur í ríkisstjórn, á alþingi eða í þjóðaratkvæðagreiðslu.