Vefþjóðviljinn 42. tbl. 19. árg.
Nú virðast stjórnvöld hafa ákveðið að ríkið kaupi stolin gögn sem sögð eru veita upplýsingar um eignir íslenskra aðila í svonefndum skattaskjólum. Fáir ef nokkrir virðast hafa efast um að þetta væri rétt að gera. Össur Skarphéðinsson vill opinbera rannsókn á því hvort stjórnvöld hafi hikað í málinu.
Það er sjálfsagt að berjast gegn því að menn skjóti peningum ólöglega undan skatti. Slíkt er lögbrot. Það er óhjákvæmilegt að ríkið haldi úti eftirliti með skattskilum og rannsaki þau eins og ástæða er til hverju sinni.
En fólk brýtur ekki aðeins lögin með því að koma sér undan að borga hluta af sköttunum. Fólk hefur einnig peninga úr ríkissjóði með því að þiggja bætur sem það á ekki rétt á. Slík brot koma einnig niður á ríkissjóði og eru að því leyti ógeðfelldari en skattaundanskotin að þau geta með tímanum orðið til þess að réttmætir bótaþegar fá minna í sinn hlut. Þótt bætur, eins og til dæmis örorkubætur og atvinnuleysisbætur, séu ekki „pottur“ í þeim skilningi að fyrirfram ákveðinni tölu sé skipt milli allra þeirra sem mega fá aðgang að „pottinum“, þá blasir við að fjöldi bótaþega getur skipt máli þegar þingmenn og sveitarstjórnarmenn ákveða hversu háar bætur verða greiddar hverju sinni. Ef lögð er til hækkun bóta til hvers og eins, spyrja þingmenn og sveitarstjórnarmenn auðvitað hvað hækkunin muni kosta hið opinbera.
En nú hafa menn sem sagt tekið þá afstöðu að hið opinbera megi ekki aðeins kaupa upplýsingar um ætluð svik, heldur einnig kaupa stolnar upplýsingar og það án þess að kaupandinn gefi kaupverðið upp til skatts.
Hvernig ætla menn þá að snúa sér í bótamálunum?
Ef einhver kemur og segist vita um tvo menn sem þiggi atvinnuleysisbætur en séu í raun að „vinna svart“, og hann sé reiðubúinn að veita upplýsingar um þá gegn greiðslu 25.000 króna og nafnleynd, hvað ætla menn að segja?
Vilja menn kannski að ríkið auglýsi að það sé tilbúið að greiða einhverja fasta upphæð fyrir slíkar upplýsingar? Segðu frá einhverjum sem svíkur út bætur, og fáðu þrjátíu þúsund kall. Veistu um mann sem fer í bió á vsk-bílnum, láttu okkur vita og fáðu fimmtán þúsund.
Þegar ríkið er byrjað að kaupa stolnar upplýsingar, ætlar það að neita að borga fyrir löglega fengnar?
Sumir þeirra sem kröfðust þess að upplýsingarnar yrðu keyptar um skattaskjólin rökstuddu það með því að ríkið fengi mun meiri peninga til baka með auknum skattgreiðslum, og svo yrðu mikil forvarnaráhrif af slíkum kaupum. Ætli það ætti ekki einnig við um upplýsingar um bótasvik?
Nú vill Vefþjóðviljinn taka fram að hann hefur ekki velt þessu máli mikið fyrir sér eða tekið mikla afstöðu til þess. En honum hefur fundist mikið vanta upp á að álitamál um kaup á upplýsingum, löglegum sem stolnum, séu rædd almennt og af yfirvegun. Ekki bara um það hvort fjármálaráðherrann sé ekki bara hræddur um að vinir sínir séu á listanum.