Vefþjóðviljinn 277. tbl. 18. árg.
Fyrir þingkosningar á síðasta ári lofuðu Vigdís Hauksdóttir og félagar hennar í Framsóknarflokknum því að þjóðnýta íbúðaskuldir heimilanna upp á hundruð milljarða króna. Meðal þeirra sem bitu á agnið voru Ólafur Páll Gunnarsson tónlistarstjóri Rásar 2. Hann kaus Framsóknarflokkinn.
Í vikunni nefndi Vigdís að spara þyrfti á Ríkisútvarpinu, en komið hefur í ljós að stofnunin hefur safnað gríðarlegum skuldum. Til að grynnka á skuldunum nefndi Vigdís þann möguleika að selja Rás 2.
Og nú var Ólafi Páli nóg boðið og lýsti því yfir á Facebook að Vigdís væri „stórhættuleg“ og „rugludallur“.
Þá hafa menn það. Ef menn lofa 300 milljarða þjóðnýtingu einkaskulda eru þeir kosnir til að stýra landinu. Ef menn viðra þá hugmynd að selja Rás 2 eru þeir ruglaðir og stórhættulegir.