Vefþjóðviljinn 282. tbl. 16. árg.
Það hlýtur að vera sérkennileg tilfinning að þykja allur fjöldinn vera heilalaus. Að maður sjálfur sé alveg meðð’etta, en allir hinir séu vitleysingar.
Einhvern veginn svona líður þeim líklega sem nú hafa gert myndband sem er hugsað til þess að reka þessa vitleysinga, sem kallast almennir kjósendur í landinu, á kjörstað til að kjósa um stjórnarskrárhugmynd Eiríks Bergmanns, Gísla Tryggvasonar, Þórhildar Þorleifsdóttur, Illuga Jökulssonar, Péturs á Útvarpi Sögu og nokkurra annarra litlu síðri „fulltrúa í stjórnlagaráði“.
Í myndbandinu birtast leikarar, tónlistarmenn og fleiri frægðarmenni, og skipta landsmönnum í raun í tvo hópa. Annars vegar eru þeir sem skilja mannréttindi, kvenréttindi, umhverfisvernd og félagsmál og þeir ætla allir að kjósa um stjórnarskrána. Hinir, þessir heimsku, ætla ekki að kjósa því að þeir hugsa ekki um annað en að fara í Elko, fá sér ís og hanga í Kringlunni.
Þetta er að verða sama skiptingin í lið og þegar Icesave var til umræðu. Þá vildi gáfaða fólkið allt fá að borga Icesave. Því þóttu allir hinir vera óupplýstir kjánar. Núna vilja þau fá að setja nýja stjórnarskrá og halda að áhugaleysi annarra á framtakinu stafi af því að aðrir geti ekki hugsað sjálfstætt um neitt nema ís og búðaráp.
Hugsanlega mætti þetta gáfaða fólk velta fyrir sér að kannski er áhugaleysi venjulegs fólks á þessu brambolti komið til af því að fólk sé bara ekki sammála gáfaða fólkinu. Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga sniðgekk dellukosninguna til „stjórnlagaþings“. Það var ekki af því að fólk væri heimskt eða að það gæti ekki hugsað um annað en að fá sér ís. Yfirgnæfandi meirihluti manna hafði bara ekki áhuga á ruglinu. Þar að auki var kosningin haldin slíkum göllum að engin leið er að segja hvernig rétt úrslit hefðu verið. Enda varð Hæstiréttur að ógilda kosninguna. Eftir það valdi minnihluti alþingismanna sér sérstakt „stjórnlagaráð“, sem hefur skilað tillögu sem lítið sem ekkert vit er í.
Og svo halda menn að áhugaleysi fólks sé vegna þess að það hugsi ekki um neitt nema „fá sér ís“.