Vefþjóðviljinn 200. tbl. 16. árg.
Sveitarstjórnir í Þingeyjarsýslum voru að senda frá sér ályktun þar sem þær kröfðust þess að fjölgað yrði lögreglumönnum í héraðinu. Ekki kom hins vegar fram hvort það væri hegðun Þingeyinga sjálfra eða aðkomumanna sem þætti kalla á aukinn mannskap lögreglunnar, en hvor hópurinn sem á sökina þá sárvantar víst fleiri lögreglumenn á svæðið.
Sem er ekki útilokað að sé rétt, því undanfarin ár hefur verið reynt að spara í löggæslunni en núverandi stjórnvöldum virðist í nöp við lögregluna. En þótt niðurskurður löggæslu eigi þannig mjög líklega fleiri og þyngri ástæður en ástand ríkissjóðs og umhyggju fyrir skattgreiðendum, þá mættu Þingeyingar horfa í eigin barm þegar þeir gera kröfur til ríkisins.
Með óstjórnlegri frekju var barið í gegnum þingið að grafin skyldu göng gegnum Vaðlaheiði, sem stytta leiðina milli Húsavíkur og Akureyrar um tíu kílómetra. Þingeyskir sveitarstjórnarmenn voru með hörðustu kröfugerðarmönnum fyrir þeirri framkvæmd. Þau munu kosta ríkissjóð stórfé. Fyrir það fé mætti senda einkennisklæddan mann til að handtaka hvern einasta Þingeying tvisvar og yfirheyra hann einu sinni.
En kannski er ósk Þingeyinganna komin til af öðru. Fyrir nokkru synjaði ráðherra, með fullkomlega lögmætum hætti þótt deila megi um réttmæti laganna, ósk Kínverja eins um undanþágu frá íslenskum lögum til að eignast gríðarmikið landflæmi. Síðan þá hafa ákafamenn fyrir norðan unnið að því að komast fram hjá þessari lögmætu ákvörðun ráðherrans. Það þykir þingeysku sveitarstjórnarmönnunum líklega sýna vaxandi óvirðingu fyrir lögum og reglum í héraðinu og þess vegna vilja þeir fá fleiri lögreglumenn. Til að koma lögum yfir þessa þrjóta. Þingeyskir sveitarstjórnarmenn kunna ekki að meta þá sem fara krókaleiðir fram hjá lögmætum ákvörðunum.