R eykjavíkurborg og stofnanir hennar þurfa að spara peninga, þótt annað mætti auðvitað halda af tillögum um mörg hundruð milljóna króna aukin framlög til byggingar Tónlistarhallar við Reykjavíkurhöfn. En á öðrum sviðum hefur raunveruleikinn tekið við og þar skal nú sparað, svo sem ráða má af uppsögnum starfsmanna Orkuveitu Reykjavíkur.
Sjálfsagt eru allar sparnaðarhugmyndir vel þegnar við slíkar aðstæður. Vefþjóðviljanum er ánægja að benda á eina. Til er fyrirbrigði sem nefnt er mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar og hefur það komið sér í fréttir undanfarið með tillögugerð sem óþarfi er að rekja nánar. En hvers vegna er sveitarfélag að reka „mannréttindanefnd“? Mannréttindi eru grundvallaratriði sem mönnum eru tryggð í stjórnarskrá og eiga að vera varin af æðstu stofnunum ríkisins. Verkefni sveitarfélaga eru af öðrum toga. Hins vegar geta frjáls félagasamtök barist gegn mannréttindabrotum um allan heim og sjálfsagt að áhugamenn um þau efni ljái slíkum félögum krafta sína.
Samkvæmt lögum ber sveitarfélögum að reka jafnréttisnefnd, sem skal vera til ráðgjafar um jafnan rétt kvenna og karla, enda er hluti íslenskra stjórnmálamanna og stór hluti fréttamanna hugfanginn af því umræðuefni þrátt fyrir stjórnarskrártryggðan lagalegan jöfnuð. Hinn hlutinn stjórnmálamannanna þorir ekki að segja neitt þar frekar en svo víða annars staðar. En hvers vegna er rekin heil „mannréttindanefnd“ í Reykjavíkurborg? Ætli það geti verið vegna hinnar sífelldu gengisfellingar mannréttinda, en fleiri og fleiri smákvartanaefni eru orðin að „mannréttindamáli“ í máli fólks. Fyrir nokkru töluðu fjölmiðlar við konu í Grafarholti sem varð fyrir því að vatn var tekið af húsi hennar meðan gert var við rör. Hún taldi mannréttindi sín brotin.
Mannréttindi eru nokkur grundvallaratriði sem standa ber tryggan vörð um. Hjalið og fjasið um smáatriði kemur mannréttindum ekkert við, og er yfirleitt til marks um lítilsvirðingu í garð þeirra sem búa við raunveruleg mannréttindabrot.
Reykjavíkurborg á ekki að reka sérstaka mannréttindanefnd, og þótt hún geri það þá hefur hún ekki vald yfir öðrum nefndum og ráðum. Þannig hefur „mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar“ ekkert vald til þess að banna kirkjuheimsóknir og helgileiki í leikskólum og skólum, hversu mjög sem nefndarmenn kann að langa til þess.