A f hverju tala menn alltaf um ríkisstjórn Geirs og Ingibjargar, þegar þeir ræða viðbrögð og viðbragðaleysi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fyrst eftir bankaþrot? Á þeim tíma og lengi á eftir var Ingibjörg Sólrún í veikindaleyfi en Össur Skarphéðinsson fór fyrir öðrum stjórnarflokknum. Fáum mánuðum síðar var hann svo hækkaður í tign fyrir vel unnin störf og gerður að utanríkisráðherra. Álitsgjafar og þeir sem sífellt æpa að menn þurfi að sæta ábyrgð, láta sér það vel líka.
E itt er þó jákvætt við kjánaganginn í stjórn og einkum þó stjórnarandstöðu í Icesaveánauðar-málinu undanfarnar vikur. Þegar flestir flokkar nema Hreyfingin láta eins og til greina komi að hætta við boðaða allsherjaratkvæðagreiðslu um Icesaveánauðar-lögin, ef „nýr samningur“ næst við Breta og Hollendinga, þá er þó í því fólgin viðurkenning á því að enginn „málskotsréttur forseta“ hafi verið til.
Auðvitað hefur Vefþjóðviljinn alltaf álitið og álítur enn að forseti hafi synjunarvald, og ákvörðun um beitingu þess sé í höndum ráðherra. Þess vegna sé alþingi heimilt að fella synjuð lög úr gildi án allsherjaratkvæðagreiðslu. En ef þeir hefðu rétt fyrir sér, sem telja forsetann hafa „málskotsrétt“, þá væri útilokað að komast hjá atkvæðagreiðslunni, því búið væri að „nýta málskotsréttinn“.
Það er þó fagnaðarefni að flestir stjórnmálaflokkarnir viðurkenna nú í reynd að enginn „málskotsréttur“ sé fyrir hendi.
Annað í málinu hefur verið með ólíkindum vitlaust, undanfarnar vikur. Hvers vegna situr stjórnarandstaðan á endalausum fundum með ríkisstjórninni um „nýjar samningaviðræður“? Sjá virkilega ekki allir að það besta sem menn geta gert í stöðunni er að bíða rólegir átekta, en fella Icesaveánauðar-lögin svo með afgerandi hætti í atkvæðagreiðslunni 6. mars? Með því móti sæju Bretar og Hollendingar að nú væri við einbeittan vilja kjósenda að eiga, en ekki lítilfjörlega stjórnmálamenn. Ef þeir á annað borð vildu halda áfram kröfugerð á hendur Íslendingum, þá yrðu þeir að gera kröfur sem von væri fyrir þá að fengist samþykkt í allsherjaratkvæðagreiðslu.
Með því að biðja um aðrar viðræður, fyrir atkvæðagreiðsluna, eru íslenskir stjórnmálamenn að afsala landinu einu af sínu sterkasta pólitíska vopni, sem er yfirgnæfandi andstaða við Icesaveánauðina í almennum kosningum.
Með því sem snillingarnir í flokksformannahópnum virðast nú ætla að semja um, þar sem stjórnarandstaðan lætur munstra sig með á hið sökkvandi skip, þá eru Bretum og Hollendingum færð þau skilaboð að nú þurfi þeir aðeins að buga eina samninganefndina enn, og þá muni málið renna andstöðulaust í gegnum alþingi, því að af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hafi stjórnarandstaðan látið plata sig með í viðræðurnar – og því enginn til að veita ríkisstjórninni aðhald meðan á þeim stendur og eftir á. Við þessar aðstæður munu Bretar og Hollendingar sjá litla ástæðu til að gefa eftir í grundvallaratriðum, þó eflaust náist einhver breyting svo þingið geti fellt steingrímslögin úr gildi.
Sennilega verður svolítið skárri ánauðarsamningur og endalok vitleysiskenningarinnar um „málskotsrétt“ það eina sem hefst upp úr öllu erfiðinu sem venjulegt fólk lagði á sig við að hindra að Icesave-ánauðin yrði á það lögð. Jú og Ólafur Ragnar Grímsson fékk tækifæri til að bregða felulitum yfir útrásarvíkingsfötin og slá sig til riddara í leiðinni. En vegna samfelldrar snilldar stjórnarandstöðuformannanna, þá virðast landsmenn ekki fá neinn raunverulegan ávinning sem máli skiptir af hetjulegri baráttu sinni.
H ér er þó rétt að taka fram að þingmenn Hreyfingarinnar hafa á margan hátt tekið skynsamlegri og yfirvegaðri afstöðu til allra þessara mála en aðrir stjórnarandstöðuþingmenn. Sennilega væri skynsamlegast að þeir stýrðu aðgerðum stjórnarandstöðunnar í Icesavemálinu öllu.