Á dögunum birti Lesbók Morgunblaðsins mikla varnargrein fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur og þann sið hennar, fram að því, að neita öllum erlendum fjölmiðlum um viðtöl, undantekningarlaust. Lesbókarmönnum hefur ekki þótt nóg að gert með hinni hugmyndaríku varnargrein Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, svo í nýjustu Lesbókinni tekur þýðandinn síkáti, Gauti Kristmannsson, upp þráðinn. Raunar verður grein Gauta, sem er skrifuð í dálkinn „fjölmiðlar“, þó fjölmiðlar séu ekki nefndir í meginmáli greinarinnar, að meginstefnu til að árás á Sjálfstæðisflokkinn og ekki síst Bjarna Benediktsson formann hans.
Gauti gagnrýnir Bjarna harðlega fyrir hafa „farið mikinn um „niðurstöðu þingsins“ í Icesave-málinu“, sem sé „hlálegt þegar litið er til þess að það var ríkisstjórnarmeirihluti þingsins sem greiddi því atkvæði og flokksmenn hans sátu hjá“. Segir Gauti þetta vera „enn hræsnisfyllra“ þar sem Bjarni og fleiri sjálfstæðismenn hafi í fyrra samþykkt að ganga til samninga um Icesave. Hræsnisfullt hafi þetta verið áður, en enn hræsnisfyllra í ljósi samþykkta síðasta árs.
Ekki er hér sparaður æsingurinn. Bjarni Benediktsson virðist ekki mega halda til haga „niðurstöðu þingsins“, af því að í lokin hafi ríkisábyrgðarlögin verið samþykkt með atkvæðum stjórnarliða einna. Svo virðist sem Gauti telji að það séu stjórnarþingmenn einir sem megi benda á lögin og þær skýru takmarkanir sem þau setja við ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninganna. Ef Bjarni og félagar hans hefðu hins vegar greitt lögunum atkvæði, þá mættu þeir kannski benda á þau. Slíkar hugleiðingar eru vitaskuld fráleitar. Auðvitað getur svo hist á, að þingmenn eða ráðherrar sem hafa frumkvæði að lagasetningu hafa þess vegna meiri skilning en ýmsir aðrir á innihaldi og tilgangi ákveðinna laga. En hér deilir enginn um lagatúlkun. Alþingi hefur einfaldlega samþykkt lög um málefnið, og hverjum borgara er heimilt og hræsnislaust að benda á ákvæði þeirra og þá staðreynd að ríkisstjórnin er eins bundin af þeim og aðrir.
Sama má segja um það þó þingmenn hafi fyrir ári talið rétt að leita samninga við Breta og Hollendinga um málið. Í slíkri afstöðu getur ekki falist skuldbinding um að styðja hvaða samning sem að endingu næðist. Enda stendur deilan um ríkisábyrgðina vegna þess að allir aðilar átta sig á því að íslenska ríkið ber ekki ábyrgð á Icesave-skuldunum og ekkert hafði verið gert til þess, fram að setningu laganna í sumar, til þess að skuldbinda ríkið til þess.
Sú ákvörðun, að íslenska ríkið gengist í ábyrgð fyrir Icesave-skuldunum, var tekin í sumar. Hana tóku allir viðstaddir stjórnarþingmenn en ekki aðrir. Þingmenn Framsóknarflokksins, þrír þingmenn Borgarahreyfingarinnar og þeir Birgir Ármannsson og Árni Johnsen, greiddu atkvæði með lögum og rétti í þeirri atkvæðagreiðslu og eiga allir heiður skilinn fyrir þá afstöðu, þó hún ætti auðvitað að vera sjálfsögð. Meginþorri sjálfstæðismanna og einn þingmaður Borgarahreyfingarinnar sátu hins vegar hjá eða voru fjarverandi, sem var til muna lakari frammistaða.