P étur Blöndal blaðamaður á oft ágætar hugleiðingar í pistlum sínum í Morgunblaðinu. Í þeim nýjasta segir hann frá spjalli sem hann hafi daginn áður átt við „Pulitzer-verðlaunahafann Diaz í þröngum hópi á Kaffi París“. Pétur segir:
Mér fannst eftirtektarvert í gær, að eitt augnablik mundi hann ekki orðið ritskoðun og spurði: „Æ, hvaða orð er það aftur, sem notað er um að þagga niður í höfundum?“ Svo rifjaðist það upp. En þetta segir auðvitað sitt um aðstæður höfunda á Vesturlöndum. |
Já, höfundar á Vesturlöndum geta fagnað því að búa ekki við ritskoðun, eins og svo margir starfsbræður þeirra hafa hins vegar þurft að gera, og sumir gera enn. Aðstæðum þeirra manna, sem nú á dögum búa við kúgun og ritskoðun, er svo að auki sýnd sérstök lítilsvirðing þegar alfrjálsir rithöfundar Vesturlanda reyna að slá sér upp með því að þykjast sjálfir búa við ritskoðun og kúgun. Meira að segja á Íslandi hefur það þótt fínt, og ávísun á umfjöllun, hrós og athygli, að láta eins og þeir hafi orðið fyrir sérstakri kúgun yfirvalda. Þannig hefur árum saman verið sunginn sami söngurinn um kúgun og ritskoðun á Íslandi, um „þjóðfélagið þar sem allir voru svo hræddir“ og bla bla bla.
Þeir, sem árum saman töluðu um hversu kúgaðir þeir væru og ritskoðaðir, gátu óhindrað sungið þennan kúgunarsöng opinberlega. Margir hverjir í ríkisútvarpinu, flestir auk þess á starfslaunum hjá hinu opinbera. Þeir sem mest gerðu úr ritskoðun sinni, kúgun og ótta, voru yfirleitt komnir í spjallþátt fáum dögum síðar, þar sem stjórnandinn tók undir hvert orð. Gjarnan á stöð í eigu ríkisins, í harðstjórnarlandinu.