Helgarsprokið 8. febrúar 2009

39. tbl. 13. árg.

Í gær var sagt frá því að nýr dómsmálaráðherra, Ragna Árnadóttir, hefði glatað kápu sinni á ríkisstjórnarfundi. Hún hefði skilið hana eftir í fatahengi en að fundi loknum hefði kápan verið horfin. Þetta bendir til þess að þessi ráðherra sé röng manneskja á röngum stað. Til að starfa í vinstristjórn verða menn allar stundir að bera kápuna á báðum öxlum.

Það kom svo í ljós að Össur Skarphéðinsson hafði farið út í kápu Rögnu, sem eru skiljanleg mistök af hans hálfu. Það fer líka vel á því, að stjórnmálamaðurinn sem breytir um yfirbragð hraðar en veðrið, er ritstjóri Þjóðviljans einn daginn og þingmaður Alþýðuflokksins hinn næsta, er frjálslyndur talsmaður stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn um hádegi en situr síðdegis í stjórnarmyndunarviðræðum á leynifundum með Ögmundi Jónassyni, mæti í þykkum karlmannsfrakka á ríkisstjórnarfund en fari þaðan í kápu Rögnu Árnadóttur.

  • Sagt var frá því í gær að þjóðminjasafninu hefðu verið afhent nokkur áhöld sem notuð hefðu verið til að búa til hávaða á götum, vikurnar áður en vinstrigrænir komust í ríkisstjórn. Eitthvað virkaði þetta nú valkvæð fornleifavarsla. Hefði ekki verið eðlilegt að láta fleira fylgja, svo sem pokana með mannlega úrganginum sem kastað var yfir lögreglumenn, málningarsletturnar og eggin sem fóru á alþingishúsið, grjótið sem var notað til að brjóta rúður í dómkirkjunni og sjúkraskýrslur lögreglumanna af slysadeildinni? Svona til að minnast hinna friðsömu mótmæla „þjóðarinnar“ af sanngirni.
     
  • Fréttamenn lásu í gær upp nýja tilskipun frá Herði Torfasyni. Að þessu sinni krafðist Hörður þess að seðlabankastjórar sættu ábyrgð fyrir „landráð“ og embættisafglöp. Landráð eru alvarlegasta brot hegningarlaganna og við þeim liggur ævilangt fangelsi. Engum fréttamanni dettur í hug að spyrja Hörð um stóryrðaflóðið sem frá honum hefur komið athugasemdalaust í fjóra mánuði. Ef einhver annar bæri það upp á nafngreinda menn að þeir hefðu brotið rúðu, rispað bifreið eða lamið mann, þá yrði hann kannski beðinn um rökstuðning og sannanir en vera ómerkingur ella. En ef Hörður Torfason ber „landráð“ upp á menn, þá er það bara sent út og það látið nægja til skýringar að svo tali „raddir fólksins“. Hvenær hefur Hörður Torfason verið beðinn um að rökstyðja einn einasta hlut?
    En svo þetta sé stafað ofan í íslenska fréttamenn: Annað hvort sýnir nú Hörður Torfason fram á, að til dæmis Ingimundur Friðriksson hafi framið alvarlegasta glæp hegningarlaganna og eigi yfir höfði sér ævilangt fangelsi – eða er einfaldlega ómarktækur gasprari sem ber að hlífa áhorfendum fréttatímanna við. Og þegar hugsað er til þeirra yfirlýsinga Harðar Torfasonar að krabbamein Geirs Haardes sé „pólitísk reykbomba“ sem „við“ tökum ekki mark á, þá geta menn velt fyrir sér hvor möguleikinn er líklegri.
     
  • Hörður Torfason hélt sinn átjánda útifund í gær. Í átjánda sinn sögðu fréttamenn vandlega frá honum fyrirfram og mættu á staðinn til að senda út valda kafla af Herði og til að tala við hann á eftir. Og í átjánda sinn fékk hann ekki eina einustu gagnrýna spurningu. Átján vel vaktaðir útifundir hafa ekki dugað einum einasta íslenska fréttamanni til að spyrja í umboði hvers Hörður Torfason geri kröfu sínar, hvaðan honum komi réttur til að knýja fram pólitísk baráttumál sín, hversu margir þurfi að mæta á fund til að geta kallað sig „þjóðina“, eða nokkuð annað sem gæti gefið til kynna að efast mætti um aukatekið orð frá Herði Torfasyni. En alltaf eru væntanlegir fundir Harðar jafn fréttnæmir, alltaf skulu þeir auglýstir í fréttatímum, jafnvel sendir út í beinni útsendingu og alltaf skulu fréttamenn taka að sér að koma herútboðum þessa manns á framfæri. Önnur frétt ríkissjónvarpsins í gærkvöldi, endurtekin fram á morgun á forsíðu textavarpsins, var næsta herútboð Harðar Torfasonar, hvar á að safnast saman og hvenær.
     
  • Hörður Torfason hefur í aldarfjórðung rætt einelti og ofsóknir sem hann hafi orðið fyrir, af hendi þeirra sem hafi talið sig eiga einkarétt á skoðunum og siðferðisvitund þjóðarinnar. Er virkilega enginn sem veltir fyrir sér hversu vel fari nú á því að sami Hörður standi æpandi á götuhornum og geri múginn þaðan út. Einn daginn að lögreglustöðinni að frelsa handtekinn mann. Næst að opinberum stofnunum til að svæla menn þaðan út. Og alltaf í nafni „þjóðarinnar“, sem enginn fréttamaður hefur á fjórum mánuðum látið sér hugkvæmast að spyrja hvar og hvenær hafi veitt Herði Torfasyni umboð til að tala fyrir sína hönd.
     
  • Fjölmiðlar hafa stórbætt eigin met í hlutdrægni undanfarna mánuði. Hafa þeir þannig lagt drjúgan skerf til þess að búa til almenningsálit sem að mörgu leyti er byggt á upphrópunum, villandi upplýsingum og í sumum tilvikum hreinum og klárum rógi. Stjórnendur ýmissa umræðuþátta útvarps og sjónvarps raða síðan í þætti sína mönnum sem þeir eru fyrirfram sammála og gefa þeim þar orðið án nokkurra gagnrýnna spurninga. Við þessar aðstæður eru svo haldnir æsingafundir þar sem sömu fjölmiðlar gera engar athugasemdir við hvers kyns stóryrði sem sett eru fram í nafni „þjóðarinnar“. Jafnvel stjórnmálamenn í ábyrgðarstöðum komast upp með að bera „þjóðina“ fyrir hverju sem er, án þess að nokkur geri athugasemd. Þessi vinnubrögð fjölmiðlamanna eru ekki ný af nálinni þó þau hafi verið sérstaklega áberandi síðustu mánuði, einmitt þegar þörfin fyrir yfirvegun, réttar upplýsingar og sanngjarna fréttamennsku, hefur verið meiri en oftast. Vefþjóðviljinn vill í þessu samhengi vekja enn athygli á fjölmiðlabókum Ólafs Teits Guðnasonar, sem allar fást í bóksölu Andríkis, en þær sýna dæmi eftir dæmi um það hvernig íslenskir fjölmiðlar gefa ranga og ósanngjarna mynd af því sem hæst ber. Þeir sem hafa fróðleik sinn um þjóðfélagsmál úr fjölmiðlum, þeir ættu eindregið að kynna sér hvaða vinnubrögð hafa lengi verið nær allsráðandi á íslenskum fjölmiðlum.