J ólahefti tímaritsins Þjóðmála er komið út og er sneisafullt af forvitnilegu efni fyrir áhugamenn um þjóðmál og menningu. Í Bóksölu Andríkis má bæði kaupa stök hefti Þjóðmála sem og áskrift að tímaritinu, en sá kostur blasir við áhugamönnum um íslensk stjórnmál.
Fjöldi greina er í Þjóðmálum hverju sinni, flestar áhugaverðari en það sem hinir hefðbundnari fjölmiðlar bjóða upp á. Gunnar Rögnvaldsson skrifar fróðlega grein um baráttu evrópskra seðlabanka við eigin ríkisstjórnir og sérhagsmunahópa, en þar er iðulega fast tekist á og stór orð sem falla. Vafalaust reka margir upp stór augu, sem heyrt hafa langa fyrirlestra um þá séríslensku trú að seðlabankar séu friðarstólar þar sem sviplausir fræðimenn segi aldrei neitt sem veki ólgu. Rekur Gunnar ýmis dæmi, máli sínu til stuðnings og mun mörgum þykja fróðlegt að lesa um erlenda seðlabankastjóra sem opinberlega lýsa efnahagsstefnu eigin stjórnvalda sem „vitfirringu“, „sjónhverfingum“ eða valda því að hagkerfið leggist í rúst. Á Íslandi krefjast menn þess hins vegar að seðlabankastjórar verði reknir ef þeir svara gagnrýni sem að banka þeirra er beint.
Hrun viðskiptabankanna kemur vitaskuld til umræðu í Þjóðmálum, en fjórir ólíkir höfundar, viðskiptafræðingur, ráðherra, lögfræðingur úr bankaheiminum og verkfræðingur, horfa á málið, hver frá sínum bæjardyrum, og fjalla um hugsanlegar ástæður, æskilegt lagaumhverfi fjármálakerfisins til framtíðar og þá skoðun sumra að kapítalisminn sjálfur hafi brugðist.
Í Þjóðmálum er oft horft um öxl og áhugamönnum um sagnfræði veitt eitthvað fyrir snúð sinn. Í þessu hefti eru dregnar fram í dagsljósið nýjar upplýsingar um dvöl Íslendinga í byltingarskólum kommúnista í Moskvu á síðustu öld, og skemmtileg tilviljun að það sé gert á sama tíma og Bókmenntafélagið endurútgefur Kommúnistaávarpið og haldnir eru útifundir til að reyna að hræða rétt kjörið Alþingi til að leysa sig upp.
Fjöldi styttri greina er í Þjóðmálum sem fyrr. Páll Vilhjálmsson á beinskeytta grein sem hvorki verður fagnað á Bessastöðum né á skrifstofum Samfylkingarinnar, Svanhildur Steinarsdóttir skrifar um konur í Arabíu, meðal annars í ljósi glaðlegra dóma í íslenskum fjölmiðlum um bók Jóhönnu Kristjónsdóttur um það efni, Þórdís Backmann skrifar um nýútkomna forsetasögu Ólafs Ragnars Grímssonar og Gústaf Níelsson um nýútkomna bók um Hafskipsmálið. Þá fjallar Björn Bjarnason um nýja bók Guðmundar Magnússonar, Nýja Ísland.
Af öðru efni heftisins má nefna að Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari fjallar um Antonin Scalia, dómara við hæstarétt Bandaríkjanna, Hallur Hallsson segir frá nýútkominni skáldsögu sinni, Váfugli, sem bregður upp framtíðarmynd af Íslandi í Evrópusambandinu og Pétur Stefánsson fjallar um íslenskt ofstæki. Pétur segir til dæmis frá því er hann var staddur á íslenskri fréttastofu í „laugardagshádegi í fyrrasumar yfir soðinni ýsu og grjónagraut með kanil. Nokkrir fréttamenn sitja í matsalnum. Allir sammála um að það sé frekar litlaust og grátt yfir þjóðmálunum og lítið í fréttum. Ég segi: „Það vantar Davíð Oddsson, hann er brillíant, það er alltaf líf í kringum hann.“ Fréttakona sem var þá hjá útvarpinu en er nú stundum líka í fréttum sjónvarps, segir með tón: „Ert þú hrifinn af Davíð?“ Ég svara: „Davíð er afburðamaður.“ Fréttakonan segir þá með vandlætingu og grettir sig með þeim svip sem vinstri menn einir geta sett upp: „Ertu þá ekki líka hrifinn af Adolf Hitler?“ Nú, jæja, fréttakonan er ekki hæf til að segja rétt og satt frá, hugsaði ég og svaraði engu. Spyrja má: Er þessi fréttakona trúverðug þegar hún flytur fréttir af Seðlabanka Íslands og Davíð Oddssyni?“
Tímaritið Þjóðmál er nauðsynleg viðbót við íslenskra fjölmiðla. Ekki síst fyrir þá sem kjósa að heyra fréttir, sagðar af fleirum en þeim yfirveguðu og hlutlausu fréttamönnum sem líkja íslenskum pólitískum andstæðingum sínum við Hitler.