Mánudagur 2. júlí 2007

183. tbl. 11. árg.

Þ að hefur ekki vakið athygli – sem er umhugsunarvert – að þingmaður vinstri grænna er samhliða þingmennskunni starfsmaður einnar af stofnunum ríkisins. Einhvern tímann hefði einhverjum þingmönnum þótt þetta skjóta skökku við og þeir hefðu jafnvel haft uppi stór orð um siðleysið og spillinguna sem þeir teldu að þetta fæli í sér. Þingmaðurinn væri á launum hjá Alþingi en gegndi á sama tíma starfi fyrir stofnun ríkisins. Ef ekki væri um þingmann vinstri grænna að ræða er ekki ósennilegt að þingmenn þess flokks færu jafnvel fremstir í gagnrýninni, eða að minnsta kosti þétt á hæla hins vandlætingarflokksins.

Þingmenn vinstri grænna telja að þingmennska sé fullt starf. Nema fyrir þingmenn vinstri grænna, um suma þeirra gilda önnur lögmál.

Álfheiður Ingadóttir var kjörin á þing fyrir vinstri græna þann 12. maí síðast liðinn. Rúmum mánuði síðar, 15. júní, undirritaði hún fréttatilkynningu frá Náttúrufræðistofnun Íslands sem lesa má á heimasíðu stofnunarinnar. Samkvæmt heimasíðunni er hún enn starfsmaður stofnunarinnar og hvorki meira né minna en útgáfustjóri hennar. Því starfi sinnir hún væntanlega í náinni samvinnu við forstöðumann upplýsingadeildar, en sá hefur ásamt öðru umsjón með útgáfu og miðlun upplýsinga á rafrænu og prentuðu formi. Það dugar vissulega ekki minna en hafa á launaskrá tvo starfsmenn til að sjá um og og stjórna útgáfumálum stofnunar sem gefur út jafn mikið efni og Náttúrufræðistofnun Íslands.

Vefþjóðviljinn hefur ekkert á móti því að þingmenn gegni öðrum launuðum störfum meðfram þingmennsku, eða öllu heldur að menn gegni þingmennsku með launuðum störfum. Best færi á því að þingmennskan væri aðeins hlutastarf og að menn gætu sinnt öðrum störfum þó að þeir væru kosnir á þing. Þingmenn vinstri grænna hafa ekki verið þessarar skoðunar og telja frekar að sífellt eigi að auka umsvif og afskipti Alþingis og að þingmennskan sé og eigi að vera fullt starf.

Einhverjir minnast þess sennilega að fjölmiðlar hafa yfirleitt sýnt því afar mikinn áhuga þegar þingmenn gegna öðrum störfum samhliða þingmennskunni. Nægir þar að nefna fréttir af þingmönnum sem jafnframt gegna störfum í sveitarstjórnum. Hvernig ætli standi á því að engum fjölmiðli finnst fréttnæmt að þingmaður vinstri grænna sé um leið útgáfustjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands? Getur verið að þeir hafi meiri samúð með þessum þingmanni vinstri grænna en mörgum þeirra sveitarstjórnarmanna sem þeir hafa fjallað ýtarlega um að undanförnu? Eða halda þeir ef til vill að Álfheiður Ingadóttir hafi í rúman áratug gegn starfi útgáfustjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands í frístundum sínum?