Álaugardaginn var birti Fréttablaðið viðtal við Sigurbjörn Einarsson biskup, sem fagnað hafði merkisafmæli daginn áður. Ekki þarf að taka fram að biskupi mælist vel og fengur að viðtalinu. Sigurbjörn talar um breytingar sem orðið hafa á þjóðlífinu á ævi sinni og þá ekki síst á þeim sviðum sem hann hefur látið sig mestu varða. Eftir að hafa látið í ljós áhyggju sína af því hve trúrækni fólks sé síður sýnilegri en var, segir biskup
Við höfum heyrt lækna og heilbrigðisstéttir tala um lífsstílsvandamál, það er að segja geðræn heilsufarsleg vandamál sem beinlínis stafa af lífsstíl. Já hvaða lífsstíl? Óeðlilegum lífskröfum, óeðlilega frekju gagnvart lífinu og dekur við sjálfan sig, sem aldrei fer vel. Sífelld áhersla á einkaréttindi og kröfur. Maður á heimtingu á þessu og heimtingu á hinu, en hvaða skyldum maður hefur að gegna, það er minna spurt um það og minna um það rætt. |
Í viðtalinu rifjar Sigurbjörn upp kynni sín af fátækt á yngri árum og minnist erfiðrar lífsbaráttu verkamanna sem höfðu lítið og stopult að gera í Reykjavík. Allir þeir sem því hefðu kynnst hefðu fagnað því þegar velferðarkerfi hefði borist hingað. En svo vakni ýmsar spurningar: „Hvernig fer opinber forsjá með fólk? Hvaða uppeldisáhrif hefur það? Gætir þess ekki nokkuð að fólk ætlist til alls af öðrum og kannski einskis af sjálfu sér? Það eru þá fyrst og fremst aðrir sem eiga að sjá fyrir hlutunum. Þetta er ekki gæfuvegur:“
ÁÁdögunum voru gerðar breytingar á reglum um atvinnuleysisbætur. Nú verða bæturnar tekjutengdar. Og auðvitað hátekjufólki í hag. Það þýðir, upp að ákveðnum mörkum, að því hærri tekjur sem hinn atvinnulausi hafði áður en hann missti vinnuna, því hærri bætur fær hann. Þeir sem betri kjör höfðu, þeir skulu fá hærri bætur en hinir! Þeir sem rétt höfðu í sig og á, þeir skulu fá lægstu bæturnar, en þeir sem voru á betri launum, þeir vesalingarnir fá hærri bætur. Þeir sem höfðu áður nægar tekjur til að búa í haginn og leggja fyrir – en gerðu það auðvitað ekki – þeir fá háar bætur, þeir sem minni möguleika áttu á slíku, þeir fá lægstu bæturnar.
Það er vitanlega ekki mikið að marka skoðanakannanir og sumar sennilega jafnvel minna en aðrar. En engu að síður var forvitnilegt atriði í skoðanakönnun Fréttablaðsins í gær um traust til stjórnmálamanna. Þar segir að svo mikið sem 8,7 % landsmanna treysti Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur best allra stjórnmálamanna. Það samsvarar þriðja hverjum Samfylkingarmanni svo Ingibjörg Sólrún er greinilega í stórsókn.
Og segi menn svo að stjórnmálamenn séu aldrei metnir að verðleikum.
Kostnaður við útgáfu Vefþjóðviljans og kynningu á henni hefur frá upphafi greiddur með frjálsum framlögum lesenda. Það hefur verið útgefanda ritsins mikið ánægjuefni hve lesendur hafa stutt vel við útgáfuna frá fyrsta degi. Andríki vill þakka þessum lesendum Vefþjóðviljans sérstaklega og þá einnig þeim sem síðar kunna að bætast í þennan góða hóp og vill hógværlega vekja athygli á því að þeir sem vilja geta stutt útgáfuna því að smella á reitinn „Frjálst framlag“ hér til hliðar.