Fimmtudagur 1. júní 2006

152. tbl. 10. árg.

F ramsóknarflokknum hafa verið færð töluverð völd í höfuðborginni. Í dag, fyrsta júní, þegar eitthundraðfimmtugastaogannað tölublað Vefþjóðviljans á þessu ári kemur út, situr við völd í ráðhúsinu í Reykjavík meirihluti Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, í skjóli sameiginlegs framboðs þessara flokka við síðustu kosningar. Framsóknarmennirnir Alfreð Þorsteinsson og Anna Kristinsdóttir stýra nú mikilvægum nefndum og ráðum borgarinnar í krafti samstarfs þessara flokka, gott ef Alfreð er ekki forseti borgarstjórnar. Fyrsta verk forsvarsmanna Samfylkingarinnar eftir kosningarnar síðasta laugardag var svo að boða Framsóknarmenn til fundar við sig, vinstrigræna og frjálslynda og reyna að mynda með þeim meirihluta í borgarstjórn, þegar umboð núverandi borgarfulltrúa rennur út, um miðjan júní.

Vinstrimenn gagnrýna nú harðlega bæði Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk fyrir að hafa ákveðið að taka upp samstarf í borgarstjórn Reykjavíkur. Virðist sem vinstrimönnum þyki sem hvorugum flokknum sé þetta heimilt; Sjálfstæðisflokkurinn má ekki „leiða Framsóknarflokkinn til valda“, því Framsóknarflokkurinn sé fylgislaus, og Framsóknarflokkurinn hafi glutrað sérstöku tækifæri til að „horfa til nýrra og spennandi tíma“ með því semja ekki við sömu flokka og áður.

Í fyrrakvöld mætti í Kastljós Ríkissjónvarpsins Katrín Júlíusdóttir þingmaður Samfylkingarinnar og kvartaði sáran yfir því að Framsóknarflokkurinn yrði í næsta meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Það bara skipti engu máli hvernig kosningar færu, alltaf skyldi Framsóknarflokkurinn dúkka upp við valdastólana að þeim loknum. En hvorki Katrín, þáttarstjórnandinn né andstæðingur hennar, virtust muna að aðeins örskömmu áður hafði Katrín talað um það, eins og ekkert væri sjálfsagðara, að Samfylkingin hefði reynt að mynda nýjan meirihluta með Framsóknarflokknum og hinum vinstriflokkunum. Þá hafði ekkert verið að því að Framsóknarflokkurinn settist í meirihluta. Það er bara þegar hann gerir það með Sjálfstæðisflokknum sem það er einhver sérstök árás á lýðræðið að lýðræðislega kjörinn borgarfulltrúi gangi til samstarfs við aðra lýðræðislega kjörna fulltrúa.

En hvernig geta aðrir flokkar láð Sjálfstæðisflokknum að ganga til meirihlutasamstarfs við Framsóknarflokkinn? Það voru bara tveir flokkar sem vildu tala við Sjálfstæðisflokkinn. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut augljóslega að leita samstarfs við annan þeirra eða hvora tveggju. Samfylkingin og Vinstrigrænir mála sig reglulega út í horn með því ofstæki í garð Sjálfstæðisflokksins sem felst í því að geta aldrei kannað, hvað þá meira, hvaða kostir þeim byðust í samstarfi við þann flokk. Sérstaklega gera vinstrigrænir sér erfitt fyrir með því að láta alltaf plata sig til að lofa því á ögurstundu að aldrei – aldrei – skuli þeir semja við Sjálfstæðisflokkinn fyrr en þá eftir að reynt hafi verið mánuðum saman árangurslaust að mynda hefðbundna vinstristjórn. Eftir að vinstrigrænir hafa látið plata sig út í þetta, þá hafa hinir flokkarnir allan tímann í heiminum til að viðra sig upp við hvern sem þeir kjósa, því vinstrigrænir hafa ótilneyddir svipt sig öllum möguleikum nema einum.

En hver segir að vinstrigrænir geti ekki náð saman við Sjálfstæðisflokkinn um ýmis mál sem þeim þættu mikilsverð? Í samstarfi flokka þá slá báðir eitthvað af sínum ýtrustu kröfum – og hvað var það sem menn héldu til dæmis að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson myndi gera að úrslitaatriði og vinstrigrænir ekki gætu sætt sig við? Ef vinstrigrænir vilja í alvöru ná áhrifum til langframa þá ættu þeir, svo lítið beri á, að einsetja sér að efna einu sinni til alvörusamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Ekki bara til þess að fá sjálfir að vita hvað í raun gæti boðist í slíku samstarfi – heldur ekki síður til þess að hinir flokkarnir sjái að þeir geti ekki gengið að vinstrigrænum gefnum einum úti í horni, hvenær sem þörf er á einhverjum sem stendur einn úti í horni.