Á þessum tíma á næsta ári verða að öllum líkindum kosningar til Alþingis. Áhugamenn um jöfnun atkvæðisréttar eru því farnir að ókyrrast enda berast litlar fréttir af því að nokkuð sé að gerast í þeim málum. Framsóknarflokkurinn hefur oftast dregið lappirnar þegar kemur að aðgerðum til jöfnunar á þessum rétti manna. Staða Framsóknarflokksins er þó önnur en áður. Sex þingmenn flokksins koma úr þeim kjördæmum sem hallar á, þ.e. Reykjavík, Reykjanesi og Norðurlandi eystra.
Þrátt fyrir að umræða um jöfnun atkvæðisréttar hafi breyst mjög til batnaðar undanfarin ár heyrast enn þau rök að svæði sem eiga undir högg að sækja eigi að hafa meira atkvæðavægi en önnur. Þrátt fyrir að ákveðin kjördæmi hafi haft margfalt atkvæðavægi hefur það lítt hjálpað þeim. Fólk hefur streymt í þau kjördæmi þar sem vægið er minnst.
Það er einnig stundum sagt að miðbærinn í Reykjavík standi höllum fæti gagnvart öðrum bæjarhlutum. Því hefur einnig verið haldið fram að undanförnu að íbúar Grafarvogs hafi verið afskiptir í gatnagerð. Engum hefur samt dottið í hug að reyna að „leysa“ þessi mál með því að íbúar þessara hverfa fái aukið atkvæðavægi við kosningar til borgarstjórnar.