Eitt af því og ekki það sísta sem boðið hefur verið upp á í bóksölu Andríkis undanfarna mánuði er áskrift að tímaritinu Þjóðmálum. Óhætt er að segja að þar sé á ferð vandað tímarit sem ætti að hafa verið langþráð hjá þeim þykir nóg um einsleitni og hugmyndafræðilega slagsíðu meginþorra fjölmiðla á Íslandi. Þjóðmál birta vandaðar greinar um ólík svið stjórnmála og menningar, greinar sem eiga það einna helst sameiginlegt að þar er tekið öðruvísi á málum en hefðbundnari fjölmiðlum er tamast. Í vikunni kom nýtt hefti út og kennir þar margra og ólíkra grasa.
Þjóðmál fjalla bæði um stjórnmál og menningu, þó stjórnmálin séu fyrirferðarmeiri. Sú grein blaðsins sem mesta athygli mun sennilega vekja mun þó teljast menningarmegin, en hinn þjóðkunni rithöfundur, Guðbergur Bergsson, skrifar tæpitungulausa grein um Halldór Kiljan Laxness. Mun mörgum vafalaust koma dómar Guðbergs um Laxness á óvart en hingað til hafa gagnrýnendur Laxness orðið að láta sér þau svör ein nægja að þeir séu hartnær ólæsir hægrimenn með lítið sem ekkert vit á bókmenntum. Sennilega verður að finna einhver önnur svör við Guðbergi Bergssyni, sem fyrir sitt leyti segir um Laxness að hann
virðist helst hafa stefnt að því að komast áfram með öllum hugsanlegum ráðum og reyndi þráfaldlega að gerast höfundur á erlendum tungum en náði engri fótfestu, hvorki í dönsku, þýsku né amerísku. Honum er hafnað hvarvetna. Að lokum neyddist hann til þess að hverfa heim og skrifa á móðurmáli sínu. Frægðarsagan segir aftur á móti að hann hafi ekki viljað svíkja tunguna heldur skrifa á íslensku heimsbókmenntir fyrir heiminn, en heimurinn hefur sýnt verkum hans fremur lítinn áhuga og alls engan sá hluti hans sem hann dáði mest, Suður-Evrópa. En menning hennar hefur haft frjó áhrif, þótt varla sé þess getið í svonefndum ævisögum, enda hafa höfundar þeirra kannski litla þekkingu á henni. |
Fjölmargt fleira áhugavert efni er í Þjóðmálum. Tveir fyrrverandi forsætisráðherrar eiga efni í tímaritinu. Birt er ræða sem Davíð Oddsson flutti við upphaf svonefndra læknadaga, fyrr á þessu ári, þar sem hann fjallaði á gamansaman hátt um eitt og annað og þá ekki síst veikindi sjálfs sín. Forveri hans, Þorsteinn Pálsson, skrifar þarfa ábendingu um það hvernig rétt er að fjalla um embættisathafnir forseta Íslands, en það vill oft gleymast, bæði viljandi og óviljandi, að öll verk forseta Íslands eru á ábyrgð ráðherra og það eru þeir en ekki hann sem eiga lokaorðið um þær. Það er til dæmis utanríkisráðherra en ekki forseti persónulega sem ræður opinberum heimsóknum forseta, það væri til dæmis menntamálaráðherra en ekki forseti sem gæti tekið ákvörðun um að forsetaembættið efndi til menntaverðlauna og svo mætti áfram telja. Ábendingar Þorsteins Pálssonar um þetta efni eru kærkomnar og því miður tímabærar.
Af öðru efni Þjóðmála er sérstök ástæða til að vekja athygli á grein Grétu Ingþórsdóttur um bandaríska öldungadeildarþingmanninn Joseph McCarthy en honum hefur mjög verið hallmælt í fjölmiðlum og kvikmyndum undanfarna áratugi. Ekki eru nema nokkrar vikur síðan nýjasta Hollywood-söguskýringin var sýnd hér um McCarthy og eins og venjulega við almennt lof gagnrýnenda. En voru þeir menn sem mest voru lofsungnir kannski í raun njósnarar Sovétmanna? Hver fær að vita það að McCarthy vildi alls ekki að nöfn þeirra sem hann rannsakaði yrðu nefnd opinberlega heldur voru það demókratar sem knúðu opinberar nafnbirtingar fram með atkvæðagreiðslu? Hver veit það að hin svokallaða „óameríska-nefnd“ hún var á vegum fulltrúadeildar Bandaríkjaþings en ekki öldungadeildarinnar og kom McCarthy ekki við. Hver fær þá mynd hér að bandarískir fjölmiðlar – svo kölluð „virt stórblöð“ – stóðu þétt á bak við njósnara Sovétmanna og hömuðust á þeim sem reyndu að rannsaka málin og gerðu þá eins tortryggilega og þau gátu. Ekki verður farið ýtarlegar yfir grein Grétu eða málefni McCarthys hér og nú, en hún kemur sjálfsagt mörgum í opna skjöldu.
Hvert hefti Þjóðmála er 96 síður og sjaldgæft að rekast á rit sem bjóða upp á jafn mikið af áhugaverðu og læsilegu efni. Áskrift að Þjóðmálum fæst í Bóksölu Andríkis og kostar árið 3500 og er heimsending innifalin