Miðvikudagur 14. september 2005

257. tbl. 9. árg.

Í

Eru gæði skóla ekki háð fleiru en fjárveitingum úr ríkiskassanum?

sland nýtur nú þess vafasama heiðurs að verja hlutfallslega mestu fé allra OECD-ríkja, og þar með líklega allra ríkja yfirleitt, til menntunar. Í frétt frá hagstofunni í gær kom fram að heildarútgjöld Íslendinga til menntamála námu 7,4% af landsframleiðslu árið 2002. Í öðru sæti eru Bandaríkin með 7,2% en meðaltal OECD-ríkjanna var 5,8%. Flestir myndu draga þá ályktun af þessum tölum að hér á landi væri miklu fé varið til menntamála. Svo er þó alls ekki um alla og þeir eru til sem telja sér sæmandi að tala oft og með stóryrðum um það að hér sé allt í kalda koli í menntamálum vegna þess að ríkið verji allt of litlu fé til málaflokksins.

Blaðaskrif vinstri manna eru gott dæmi um þetta en þeir amast mikið við „fjársvelti“ menntakerfisins. Einn þessara er Björgvin G. Sigurðsson þingmaður Samfylkingarinnar, sem hefur ósjaldan tjáð sig með þessum undarlega hætti, til dæmis í vor þegar hann skrifaði í Morgunblaðið að menntamálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins síðustu 14 árin hefðu „valdið íslensku menntakerfi miklum skaða“. Og skaðinn er að mati þingmannsins sá, að skólunum hafi verið haldið í „fjársvelti“. Annar þingmaður Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, fjallaði með ámóta sérkennilegum hætti um menntamál fyrir síðustu Alþingiskosningar. Hann kvartaði líkt og Björgvin yfir „fjársvelti“ og sagði í Morgunblaðinu að það yrði „eitt af forgangsmálum Samfylkingarinnar á næsta kjörtímabili að tryggja stórauknar fjárfestingar í menntakerfinu“.

Afstaða vinstri manna til menntamála er lýsandi fyrir afstöðu þeirra til mála almennt. Það hefur engu breytt þótt vinstri menn kalli sig nú gjarnan „nútímalega jafnaðarmenn“, „félagshyggjumenn“ eða „óháða“, þeir eru við sama heygarðshornið og áður. Telji þeir sig einhvers staðar sjá að gera megi betur líta þeir jafnan til ríkiskassans og vilja draga meira fé úr honum. Útgjöldin eru aldrei næg að þeirra mati og þrátt fyrir að Ísland slái heimsmet í ríkisútgjöldum vilja þeir að lengra sé gengið.

Á sama tíma gera þeir allt sem þeir geta til að koma í veg fyrir að peningarnir verði nýttir skynsamlega. Þannig hafa vinstri sinnuð borgaryfirvöldin ítrekað brugðið fæti fyrir einkarekstur í skólakerfinu og vinstri menn tala jafnan gegn slíkum rekstri. Þeir mega ekki til þess hugsa að aðrir en ríkisstarfsmenn kenni börnunum að lesa eða unglingunum að reikna. Um leið kvarta vinstri menn svo jafnvel stundum yfir því að aðhaldið í ríkisfjármálum sé of lítið. Hver skyldi lausnin á því svo vera? Jú, hún er að ríkið lækki ekki skatta.