Þriðjudagur 13. september 2005

256. tbl. 9. árg.

Fá ef nokkur dýr vekja meiri aðdáun manna en tígurinn. Verðmæti dýrsins er eftir því. Engu að síður er dýrið verðlaust samkvæmt laganna hljóðan. Með alþjóðlegu banni við verslun með afurðir tígrisdýra hefur konungi frumskógarins verið breytt í algera óværu fyrir nágranna sína. Þeim er bannað að hagnýta nálægðina við dýrin en þurfa að bera kostnaðinn við sambýlið. Á Indlandi einu drepa villidýr á borð við tígurinn, hlébarðann og fílinn yfir 300 manns á ári. Auk þess höggva stóru kettirnir stór skörð í búsmala. Veiðiþjófar nýta sér þessa árekstra milli manns og kattar og greiða allt niður í 20 dali fyrir leiðsögn þorpsbúa við ólöglegar tígrisdýraveiðar. Fyrir hina ýmsu líkamsparta tígursins fást hins vegar allt að 40 þúsund dalir á svörtum markaði Austur-Asíu. Nær allir líkamshlutar tígursins eru mjög verðmætir ekki síst vegna hefða í austurlenskri læknisfræði; klær eru taldar vinna bug á svefnleysi, tennur lækka sótthita, heilinn eykur mönnum vinnusemi, augun lækna flogaveiki og malaríu, veiðihárin hughreysta og bæla frá tannverk og svo mætti áfram telja.

Indverjinn Barun Mitra fjallaði um örlög tígursins í grein í Far Eastern Economic Review í júní í sumar en um helming villtra tígrisdýra er að finna á Indlandi.

Tilraunir manna til að bjarga tígrisdýrinu eru að renna út í sandinn. Þrjátíu árum eftir að hinni umtöluðu verndaráætlun „Project Tiger“ var ýtt úr vör eru aðeins fimm til sex þúsund dýr eftir úti í nátttúrunni. Um helmingur villtra tígrisdýra er á Indlandi en á einu verndarsvæðinu, Sariska, hefur ekki sést tígur undanfarið ár. Í febrúar lögðu yfirvöld hins vegar hald á mikið magn af skinna af bæði hlébörðum og tígrisdýrum. Stjórnvöld í Nýju Delhi viðurkenndu nýlega að dýrum í útrýmingarhættu er smyglað um Nepal og Tíbet til Kína og um Búrma á gjöfula markaði í Austur-Asíu. Manmohan Sing forsætisráðherra lýsti stöðunni sem neyðarástandi og sótti hið fræga Ranthambore verndarsvæði tígrisdýra í Rajasthan héraði heim.

Mitra telur að hin opinbera verndaráætlun hafi mistekist því menn hafi ekki tekið tillit hagsmuna þeirra sem búa í návígi við dýrin. Ef menn vilji ná árangri þurfi að gera nágrönnum dýranna kleift að hafa af þeim tekjur. Hann vill meðal annars hefja skipulega ræktun tígrisdýra á búgörðum jafnframt því að bjóða upp á ferðatengda þjónustu eins og skoðunarferðir og veiði. Skilgreina þurfi nýtingarrétt á dýrunum svo einhver hafi hag af því að vernda þau. Tígurinn sé ekki aðeins efstur í fæðukeðjunni heldur gæti hann einnig trónað á toppi hagkerfisins vegna hins gríðarlega verðmætis. Það þurfi því að afnema verslunarbannið svo hægt verði að tengja saman hagnýtingu og verndun tígursins. Tígurinn þarfnist markaðslausna í stað boða og banna til að endurheimta konungdæmi sitt í frumskóginum. Menn megi svo ekki gleyma því að þrátt fyrir allt sé tígurinn endurnýjanleg auðlind.

Milljónum dala hefur verið eytt í að vernda tígurinn fyrir veiðiþjófum. Niðurstaðan blasir við. Umhverfisverndarbáknið hefur þanist út, meira fé er mokað í alls kyns átaksverkefni, umhverfisverndarmenn maka krókinn og æ fleiri ráðstefnur um verndun dýra í útrýmingarhættu eru haldnar. Tígurinn er áfram í hættu. Viðskiptabannið hefur brugðist vonum manna og það er kominn tími til að menn átti sig á að aðeins með því að virkja markaðsöflin getum við vænst þess að bjarga tígrisdýrinu frá útrýmingu.