Þegar Rudolph Diesel hannaði vélina sem síðan hefur verið við hann kennd hefur hann væntanlega ekki séð fyrir að rúmlega hundrað árum síðar yrðu stjórnvöld á Íslandi í mesta basli með þessa gagnlegu uppgötvun hans. Það sem vakti fyrir Diesel með hönnun á þessari nýju vél var að bæta nýtingu á eldsneyti . Þetta tókst svo vel að enn er þessi aðferð við bruna á jarðefnaeldsneyti sú hagkvæmasta sem þekkist. Hún er til dæmis hagkvæmari en bensínvélin en munurinn á þessum tveimur vélum liggur fyrst og fremst í því að í Dieselvélinn er lofti þjappað saman í sprengihólfi þar til það er nægilega heitt til að sprenging verði þegar eldsneytinu er úðað inn í hólfið. Í bensínvélum er kveikt í eldsneytinu með rafkveikju.
Undanfarna áratugi hefur skattlagning á bílum búnum Dieselvélum á Íslandi verið með þeim hætti að menn hafa þurft að aka að lágmarki 25 til 30 þúsund kílómetra á ári til að það svaraði kostnaði að vera á Dieselbíl fremur en bensínbíl. Undanfarin allmörg ár hafa menn rætt um að breyta þessu og væri fróðlegt að vita hve margar vinnustundir, eða öllu heldur ár, hafa farið í vangaveltur um þetta í fjármálaráðuneytinu. Hinn 1. júlí næstkomandi verður þessari skattlagningu loks breytt með það fyrir augum að auka notkun Dieselbíla. Stjórnvöld hafa sumsé ákveðið að hætta að letja menn til notkunar á Dieselbílum og fara þess í stað að hvetja menn til þess að kaupa frekar Dieselbíl en bensínbíl. Ástæðurnar fyrir þessum sinnaskiptum eru meint gróðurhúasáhrif af mannvöldum, sem ýmsir hafa áhyggjur af. Dieselvélar eru sparneytnari og því má gera ráð fyrir að maður sem ekur um á Dieselbíl sendi minna af gróðurhúsalofttegundum frá sér en maður á sambærilegum bensínbíl.
Dieselvélarnar brenna þyngra eldsneyti en bensínvélar og voru fram á síðustu ár frægar að endemum fyrir reykinn og sótið sem stóð úr púströrum þeirra tækja sem gengu fyrir Dieselolíu. Þetta hefur batnað til muna hin síðari ár, bæði vegna hreinna eldsneytis og ekki síður með endurbótum á uppgötvun Diesels. En bensínvélarnar hafa það líklega enn almennt fram yfir Dieselvélarnar að úr þeim kemur minna sót. Svifryksmengun í Reykjavík er eina loftmengunin sem eitthvað kveður að hér á landi. Hún er þó ekki nema að litlu leyti frá útblæstri bíla heldur er um að kenna illa hirtum og sóðalegum götum í Reykjavík. Jarðvegur og uppspænt malbik liggur á götunum og þyrlast upp aftur og aftur þegar bílar fara hjá. Bensín- og Dieselbílar hafa því báðir nokk til síns ágætis. Minna sót kemur úr bensínbílum og Dieselbílinn er sparneytnari og gefur þar af leiðandi frá sér minna af gróðurhúsalofttegundum.
Þrátt fyrir ætlun stjórnvalda að gera Dieselbíla að hagkvæmari kosti tókst ekki betur til en svo að allt útlit er fyrir að lítrinn af Dieselolíu verði dýrari en bensínlítrinn þegar kerfisbreytingin tekur gildi í sumar en þá leggst 45 króna olíugjald á lítrann af Dieselolíu í stað þungaskattsins. Ofan á þennan 45 króna skatt bætist auðvitað virðisaukskattur svo heildartalan er 56 krónur.
Það er auðvitað mátulegt á stjórnvöld að þegar þau ákveða loks að breyta kerfinu skuli breytingin ekki skila sér til fulls vegna þróunar á verði bensíns og Dieselolíu á heimsmarkaði. Auðvitað eiga stjórnvöld ekki að stunda svona tilraunir til neyslustýringar. Það ætti ekki aðeins að vera sama skattlagning á bensíni og Dieselolíu heldur einnig á eldsneyti og öðrum vörum.