Ísíðustu viku var talsvert rætt um undarlega tilkynningu sem Landsbókasafni Íslands barst frá óskilgreindum aðila sem kallar sig fjölskyldu Halldórs Laxness. Tilkynningin var þess efnis að frá og með þeirri stundu væri öllu fólki, öðru en tveimur nafngreindum einstaklingum, bannaður aðgangur að því skjalasafni Halldórs sem margir töldu að hefði verið gefið Landsbókasafninu skilyrðislaust fyrir nokkrum árum. Ekki virðist nokkur efast um að þessi tilkynning stafi af því að nú um stundir kvað Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor við Háskóla Íslands, vinna að ritun ævisögu Halldórs Laxness, við afar litla kátínu ýmissa úr fjölskyldu skáldsins. Og eins og áður segir þá hafa ýmsir tekið til máls um þetta mál og meðal þeirra er einn allra þekktasti rithöfundur landsins.
Í grein í DV síðastliðinn föstudag fjallar Guðbergur Bergsson um Halldór Laxness, hirðina í kringum hann og hatur sumra á Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni. Er óhætt að segja að Guðbergur láti menn fá það óþvegið og er grein hans ólík flestu því sem kemur frá dæmigerðum íslenskum rithöfundi, að ekki sé minnst á bókmenntafræðinga, í hvert sinn sem Halldór Laxness berst í tal. Guðbergur segir að ef marka megi orð Halldórs sjálfs þá hafi hann stöðugt skipt „um skoðun á hagkvæman hátt, sjálfum sér til framdráttar“ og stjórnast af síbreytilegum höfuðlausum her í kollinum á sér og tunguliprum her í kringum sig. „Á tímum nauðsynjar kappkostuðu samherjar að þyrla upp moldviðri við hvert fótmál meistarans svo að fáir kæmu auga á uppblásinn jarðveginn sem var oft lítið annað en ryk til að skemmta skrattanum“ segir Guðbergur Bergsson og má ímynda sér að ýmsum menningarvitum svelgist nú á.
Og ef einhverjum bregður við að heyra dóma Guðbergs Bergssonar yfir Halldóri Laxness, hvað ætli þeir segi þá um orð eins og þessi?
Það er næstum sjúklegt hvað sumir hafa mikla andúð á Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni. Á sínum tíma var hann ekki talinn hæfur til að kenna nemendum við Háskólann þótt hann hefði lært og verið doktor frá Oxford, ef ég man rétt. Þessi fjarstæðukennda andúð virðist nú hafa færst yfir á efasemdir um bókina sem hann hefur í smíðum þótt enginn hafi séð stafkrók í handritinu. … |
Hin einkennilega afstaða til Hannesar kemur helst fram hjá þeim hluta „vinstraliðsins“ sem hefur misst niður um sig buxurnar í stjórnmálum, listum, bókmenntum og menningarmálum. Áður var það allsráðandi þar. Nú kemur aðeins frá því leifar af hugsun fólks sem komst í „kramið“ með því að selja sig í svo litlum skömmtum að það heldur að enginn taki eftir því. En sýnilegi árangurinn er sá sami hér og í flestum löndum þar sem afturhaldið hefur sigrað að undanförnu. Í valdastöðum er sægur af þessu smáskammtafólki: fyrrum marxistum, lenínustum, trotskíistum og æskulýðsfylkingarfólki. Því hefur tekist að losna við hýðingu þótt hún liggi beinast við. Þegar á hólminn er komið lyfta menn eins og Hannes Hólmsteinn gjarna brókinni um berrassaða fyrrum andstæðinga, í gustukarskyni, því oft leynist í mönnum eins og honum miskunnsami Samverjinn en Satan í yfirlýstum englum. |
Já það er hætt við að mörgum vinstrisinnuðum menningarvitanum hafi brugðið á föstudaginn: Sjúkleg andúð á Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni. Berrassaðir marxistar og æskulýðsfylkingarfólk vaða uppi og hafa ennþá sloppið við maklega hýðingu. Og sá sem svona skrifar er ekki einhver sem hægt er að afgreiða með venjulegum frösum. Varla ætla menn að fitja upp á nefið einu sinni enn og segja að þarna sé þessu frjálshyggjuliði rétt lýst, því nú kemur hið óþægilega frá ekki ómerkilegri rithöfundi en Guðbergi Bergssyni, margverðlaunuðum og lofsungnum. Sennilega hefur ýmsum svelgst á þennan daginn og jafnvel misst niður á sig væna sleif af hafragrauti.