Miðvikudagur 8. október 2003

281. tbl. 7. árg.

Útlit er fyrir að næsta haust muni ung kona, sem hefur lagt sig alla fram í námi og fengið góðan vitnisburð kennara sinna, þurfa að finna sér annað framtíðarstarf en hún hafði stefnt að. Ástæðan er sú að ungur karlmaður, sem ekki hefur stundað nám sitt af eljusemi og hefur í gegnum tíðina hlotið fremur slakar einkunnir, þarf að fá forgang. Karlinn hefur ekkert umfram konuna nema það að vera karl, og starfið sem þau hafa bæði hug á að stunda geta bæði kyn sinnt. En hvernig má þá vera að duglega konan muni þurfa að finna sér annað ævistarf en hyskni karlinn fái aðgang að því starfi sem þau hafa bæði hug á?

Skýringin á þessum undarlegheitum kom fram í viðtali Morgunblaðsins við rektor Kennaraháskólans í byrjun þessarar viku. Þar segir rektor að nú sé verið að ræða hvort setji eigi á kynjakvóta, „sem mundi þýða að karlmenn ættu forgang upp að vissu hlutfalli“. Ákvörðunar um þetta sé að vænta um næstu áramót og ekki sé ólíklegt að kynjakvóti verði viðhafður næsta haust. Hingað til hafa verið í gildi reglur um inntöku í grunndeild skólans og þar hafa meðal annars verið ákvæði um fjöldatakmarkanir. Þessar fjöldatakmarkanir hafa eins og við er að búast verið nokkuð málefnalegar og samkvæmt þeim hefur verið leitast við að velja úr umsækjendum út frá þáttum sem kunna að skipta máli. Þannig segir í reglunum að ef takmarka þurfi fjölda skuli það gert með hliðsjón af eftirfarandi:

– Meðaleinkunn á því prófi sem krafist er á viðkomandi braut (eða í námi síðar), auk árangurs í íslensku
– Önnur menntun, einkum menntun á háskólastigi
– Starfsreynsla og hæfni á sviði kennslu, uppeldis og umönnunar
– Önnur reynsla er máli skiptir (t.d. félagsstörf)

Fyrir næsta haust stefnir í að fimmta mælikvarðanum verði bætt við og mun hann væntanlega hljóma eitthvað á þessa leið:

– Nú sækja um karl og kona og konan er hæfari karlinum. Skal karlinn þá hljóta inngöngu en konunni hafnað.