Jæja þá er komið að því. Púrtvín eða perusnafs? Hvort á að leyfa sölu púrtvíns eða perusnafs í matvöruverslunum? Það er komið á daginn að menn verða að gera upp á milli þessara ágætu drykkja.
Samkvæmt heimsmetabók Guinness á Ágúst Ágústsson á alþingi Íslendinga heimsmetið í því lýsa sjálfan sig frjálslyndan og nútímalegan jafnaðarmann. Hann starfar í lýðræðislegum jafnaðarmannaflokki, nútímalegum að sjálfsögðu, enda er 21. öldin gengin í garð. Því bar vel í veiði þegar Ágúst Ágústsson á alþingi veitti svör við spurningu um smásölu á áfengi í útvarpsviðtali á dögunum. Spurningin til hans var orðuð á einfaldan hátt svo ekkert færi á milli mála. Á að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum? Já auðvitað, svaraði Ágúst Ágústsson. Ehh, það er að segja léttvíns og bjórs.
Fyrir honum er þetta einfalda mál ekki tækifæri til að aflétta ríkiseinokun og auka frelsi í viðskiptum heldur tækifæri til að hafa vit fyrir athafnamönnum og neytendum á nýjan – afsakið nútímalegan – hátt. Engu banni má aflétta án þess að leggja nýtt á. Þess vegna vill Ágúst Ágústsson náðarsamlegast leyfa landslýð að kaupa púrtvín út í búð en perusnafs, ó nei. Bjór já en gin nei.
Til að fylgja þessari stefnu einarðlega hefur Ágúst Ágústsson lagt fram frumvarp með Jóhönnu Sigurðardóttur um að á veitingahúsum verði 18 og 19 ára heimilt að drekka púrtvín með 20% alkóhólinnihald en stranglega bannað að sötra einfaldan vodka í kók með 5 – 10% alkóhólinnihaldi. Hann hefur jafnframt lýst yfir stuðningi við frumvarp Kolbrúnar Halldórsdóttur um að leyfa vændi. Frjálslyndir jafnaðarmenn standa saman þegar á reynir. Frumvarpinu fylgir að sjálfsögðu nýtt bann. Jú, jú vændi verður leyft en það verður bannað að kaupa það.