Hann talaði enga tæpitungu í Morgunblaðs-grein sinni í fyrradag, Páll Vilhjálmsson blaðamaður og fyrrum ritstjóri. Enda kannski ekki ástæða til að tala tæpitungu eins og nú er umhorfs í íslenskum þjóðmálum:
Formaður Samfylkingarfélags Seltjarnarness telur „forsætisráðherraefni“ Samfylkingarinnar nytsaman sakleysingja sem veiti vafasömum fyrirtækjum siðferðilega aðstoð við sókn þeirra á hendur yfirvöldum í landinu. Það þykir engum fréttamanni fréttnæmt. |
„Atlaga Fréttablaðsins að Davíð Oddssyni er tilraun harðdrægra kaupsýslumanna til að sverta mannorð forsætisráðherra vegna gagnrýni hans á óeðlilega viðskiptahætti stórfyrirtækja. Á bakvið tilræðið að mannorði Davíðs eru fyrst og fremst viðskiptahagsmunir en þeir sækja sér pólitíska réttlætingu til fá lögmætt yfirbragð.“
Nei, Páli Vilhjálmssyni er ekki skemmt yfir þeim atburðum sem fólk hefur getað fylgst með undanfarið. Hann, eins og svo margir aðrir, hafa séð þær aðgerðir sem skipulega hafa verið stundaðar til að „gefa undir fótinn þeirri flökkusögu að forsætisráðherra hefði beint eða óbeint stuðlað að heimsókn lögreglu í bækistöðvar Baugs í ágúst liðinn.“ Augljóst má vera hverjir hafa hag af slíkum sögum. Pólitískir andstæðingar forsætisráðherra, sem ekki hafa málefnalega stöðu til að ganga á hólm við hann og ríkisstjórnina, vilja reyna að telja fólki trú um að af einhverjum allt öðrum ástæðum sé nauðsynlegt að skipta um ríkisstjórn og færa forystu stjórnarandstöðunnar öll völd. Og í þeim tilgangi er reynt að koma á kreik hvers kyns sögum er kynnu að hjálpa við að skapa tortryggni gagnvart forystumönnum ríkisstjórnarinnar. En það eru ekki aðeins óprúttnir stjórnmálamenn sem hafa hag af slíku, Páll Vilhjálmsson bendir á fleira:
„Ef tækist að telja almenningi trú um að Baugur væri í lögreglurannsókn vegna andúðar forsætisráðherra á fyrirtækinu þyrftu forsvarsmenn Baugs ekki að hafa áhyggjur af niðurstöðu lögregluyfirvalda og dómstóla. Sekt þýddi einfaldlega að forsætisráðherra væri búinn að ákveða að svo yrði en sýkna að jafnvel almáttugur Davíð Oddsson gæti ekki komið á kné svo grandvöru og heiðarlegu fyrirtæki sem Baugur er. Hér er meira í húfi en orðstír Davíðs Oddssonar. Ef atlaga Fréttablaðsins heppnast bíður hnekki tiltrú almennings á réttarríkinu. Kaupsýslumönnum á ekki að líðast að hafa stofnanir lýðveldisins og réttkjörin yfirvöld að leiksoppi.“
Nú heldur kannski einhver að þessi Páll Vilhjálmsson riti grein sína til þess að standa við bakið á pólitískum samherja, forsætisráðherranum. En því fer fjarri. Páll Vilhjálmsson er svo fjarri því að vera sjálfstæðismaður að hann er beinlínis formaður Samfylkingarfélags Seltjarnarness og meira að segja fyrrum ritstjóri málgagns Alþýðubandalagsins. Hann virðist því vera ein fárra undantekninga frá þeirri nýju vinnureglu almennra Samfylkingarmanna, að þegja undir öllum orðum og gerðum síns nýja leiðtoga, þessa sem enginn hefur valið til forystu í flokknum nema hún sjálf! Formaður Samfylkingarfélags Seltjarnarness virðist að minnsta kosti ekki láta það eftir sér að loka augunum fyrir því sem blasir við venjulegu fólki:
„Til að flétta Baugsmanna gengi upp þurfti utanaðkomandi aðstoð. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar bauð sig fram sem nytsaman sakleysingja þegar hún í alræmdri Borgarnesræðu í febrúar bar blak af þrem nafngreindum fyrirtækjum sem tæplega eru fyrirmyndardæmi um atvinnurekstur, svo ekki sé meira sagt, og ásakaði forsætisráðherra fyrir að leggja fyrirtækin í einelti. Eitt þeirra er Baugur og annað Norðurljós/Jón Ólafsson. Með því að taka þessi fyrirtæki í faðm sér gaf Ingibjörg Sólrún Baugi og Norðurljósum siðferðilega fjarvistarsönnun frá þeim sakarefnum sem á fyrirtækin eru borin og sæta opinberri rannsókn. Í leiðinni veitti Ingibjörg Sólrún Baugi tækifæri til að hefja gagnsókn á hendur yfirvöldum.“
Þjóðkunn Samfylkingarkona taldi engin takmörk fyrir lágkúru forystu Samfylkingarinnar. Það þótti nú ekki fréttnæmt heldur. |
Eins og menn vita verða fréttamenn óðir og uppvægir ef sjálfstæðismaður gagnrýnir eigin flokk eða forystu. Er stundum engu líkara en þar hafi mælt sjálfur páfi ex cathedra, svo mikill verður ákafi fjölmiðlamanna að fá hinn óánægða sjálfstæðismann í viðtöl og umræðuþætti. Þegar hins vegar maður eins og Páll Vilhjálmsson kemur fram er yfirleitt annað uppi á teningnum. Það þykir ekkert merkilegt. Muna menn til dæmis eftir greininni sem hin kunna Samfylkingarkona, Kolbrún Bergþórsdóttir, skrifaði á dögunum og taldi „hlægilegt og til lítils sóma“ hvernig Samfylkingarforystan tróð framagosa úr öðrum flokki á framboðslista sinn? „Er Samfylkingin að hæðast að flokksfólki?“ spurði Kolbrún Bergþórsdóttir og spurði: „Eru nú ekki einhver takmörk fyrir lágkúrunni eða vilja menn gera hvað sem er til að ná í atkvæði?”.
Man einhver eftir að nokkrum fjölmiðlamanni hafi þótt þetta markvert? Og ímyndi menn sér svo að það hafi ekki verið þjóðkunnur Samfylkingarmaður heldur sjálfstæðismaður sem svo talaði um uppstillingu eigin flokks.