Helgarsprokið 8. desember 2002

342. tbl. 6. árg.

Dr. Norman E. Borlaug fékk friðarverðlaun Nóbels árið 1970 fyrir að vera upphafsmaður Grænu byltingarinnar, sem er bylting í landbúnaðarframleiðslu og hefur bjargað milljónum manna frá hungursneyð. Borlaug er orðinn 88 ára gamall og hefur starfað að því að bæta og auka matarframleiðslu heimsins í 58 ár, og er enn að. Hann er einn þeirra sem rita kafla í bókina Global Warming and Other Eco-Myths, sem Competitive Enterprise Institute gaf út fyrr á þessu ári undir ritstjórn Ronalds Baileys.

„Borlaug segir að engar vísindalegar upplýsingar séu til sem styðji þær kenningar að genabreytt framleiðsla sé hættuleg og að þessi framleiðsla hafi verið notuð lengi án þess að nokkurt dæmi sé til um að nokkrum manni hafi orðið meint af.“

Borlaug fjallar um það verkefni að fæða alla jarðarbúa og einnig um baráttuna gegn vísindum og framförum í fæðuframleiðslu, sem jafngildi baráttu gegn aukinni framleiðslu. Borlaug rekur sögu landbúnaðarframleiðslunnar og segir framleiðslu byggða á vísindarannsóknum í raun aðeins vera um aldargamla. Í byrjun síðustu aldar hafi verið gerðar merkar uppgötvanir sem leitt hafi til þess að hægt hafi verið að framleiða mikið af tilbúnum áburði. Heimsstyrjaldirnar tvær hafi hins vegar sett strik í reikninginn, því efni sem notuð séu í tilbúinn áburð séu einnig notuð í sprengjur. Það hafi því ekki verið fyrr en eftir síðari heimsstyrjöldina sem ódýr tilbúinn áburður hafi orðið almennur og hann hafi stuðlað að mikilli framleiðsluaukningu. Borlaug segir að án nýtingar þeirra uppgötvana sem gerðar hafi verið á þessu sviði væri nú aðeins hægt að fæða 60% jarðarbúa.

Borlaug nefnir ýmsar tölur um betri nýtingu lands, það er að segja aukna framleiðslu á hveiti, maís, sojabaunum, hrísgrjónum og þess háttar á hvern hektara. Þannig segir hann að ef sama framleiðsla hefði náðst út úr hverjum hektara árið 1999 og árið 1950 hefði þurft að leggja þrefalt meira af jafn góðu landi undir landbúnaðarframleiðslu. Miðað við þetta hafa tækniframfarir í landbúnaðarframleiðslu sparað um 1.200 milljónir hektara lands, sem er athyglisvert í ljósi þess að svo kallaðir náttúruverndarsinnar berjast yfirleitt af ákafa gegn nýtingu vísindalegrar þekkingar í landbúnaði og vilja hafa sem mest af ósnortnu landi. Þetta getur augljóslega ekki farið saman ef fæða á alla jarðarbúa. Þar fyrir utan er sá möguleiki ekki fyrir hendi að hætta að nota vísindaþekkingu við landbúnað og brjóta þess í stað meira af jafn góðu akurlendi undir ræktunina, því þetta land stendur ekki til boða, síst af öllu í hinni fjölmennu Asíu.

Fjöldi jarðarbúa er nú um 6 milljarðar. Spár Sameinuðu þjóðanna gera ráð fyrir um 7,9 milljörðum manna árið 2025 og að mannfjöldinn nái hámarki og staðnæmist við um 9-10 milljarða undir lok aldarinnar. Borlaug bendir á að auka þurfi framleiðslu umtalsvert til að fæða allan þann fjölda sem gert er ráð fyrir að byggi jörðina eftir nokkra áratugi. Þetta verði krefjandi verk en alls ekki ómögulegt ef menn noti þá tækni sem til staðar er og sem sé á ýmsum stigum þróunar. Í þessu sambandi bindur hann mestar vonir í framtíðinni við erfðabreytt matvæli, en þau eru vinsælt skotmark svo kallaðra umhverfissinna nú um stundir. Þetta er sérkennilegt bæði í ljósi þess að þau eru líklega forsenda þess að hægt sé að fæða alla jarðarbúa og einnig í því ljósi að með framförum á þessu sviði má draga verulega úr notkun skordýraeiturs, sem ekki hefur verið í sérstöku uppáhaldi þeirra sem telja sig meiri umhverfissinna en aðra menn. Borlaug segir að engar vísindalegar upplýsingar séu til sem styðji þær kenningar að genabreytt framleiðsla sé hættuleg og að þessi framleiðsla hafi verið notuð lengi án þess að nokkurt dæmi sé til um að nokkrum manni hafi orðið meint af.

Borlaug telur að hluti skýringarinnar á því hve margir eru áhyggjufullir yfir ástandi umhverfismála megi rekja nokkra áratugi aftur í tímann, en um miðja síðustu öld hafi gæðum vatns og lofts verið spillt verulega með iðnframleiðslu. Á þessu hafi hins vegar orðið alger umskipti og á síðustu 35 árum hafi gæði vatns og lofts tekið verulegum framförum. Hið sama megi segja um verndun villtra dýra, losun úrgangs og verndun jarðvegs. Miklu meiri árangur hafi náðst á nánast öllum sviðum umhverfismála en viðurkennt sé í fjölmiðlum og Borlaug segist telja skýringuna þá að heimsendaspár séu góð söluvara. Hann nefnir einnig dæmi um ýmsa vísindamenn sem hafi stokkið á þennan vagn í keppni um rannsóknarstyrki. En þó stundum mætti ætla af því sem lesa má í fjölmiðlum að svo að segja allir vísindamenn rauli í kór svo kallaðra umhverfissina er sú ekki raunin. Borlaug nefnir að yfir 3.000 vísindamenn hafi undirritað Heidelberg áskorunina, sem kynnt hafi verið þjóðarleiðtogum og ríkisstjórnum við lok ráðstefnunnar í Rio de Janeiro árið 1992. Í lokakafla hennar segir að mesta ógn sem steðji að jörðinni sé fáfræði og kúgun en ekki vísindi, tækni og iðnframleiðsla, sem séu, ef þau séu rétt notuð, ómissandi tæki til að skapa mannúðlega framtíð.

Borlaug leggur áherslu á að með þeirri tækni sem menn hafa yfir að ráða eða sé langt komin í þróun verði hægt að fæða 10 milljarða manna, sem sagt þann fjölda sem gert er ráð fyrir að verði að hámarki á jörðinni. Spurningin sé sú hvort bændum verði leyft að nýta sér þessa nýju tækni. Litlir háværir hópar innan ríku landa heimsins geri allt sem þeir geti til að stöðva vísindalegar framfarir á þessu sviði. Þeir geti leyft sér að greiða hærra verð fyrir mat sem kallaður sé lífrænt ræktaður, en sá milljarður manna sem sé vannærður í fátækustu löndum heims hafi ekki þennan möguleika.