Mánudagur 17. mars 2003

76. tbl. 7. árg.

Hann er nú meiri ólfurinn þessi Þórálfur. Eða eitthvað. Hann er að minnsta kosti að verða einhver undarlegasti stjórnmálamaður landsins og það eftir aðeins hálfan annan mánuð í starfi. Nýjasta framlag hans til íslenskra stjórnmála var birt borgarbúum í helgarblaði DV og má af því ráða að nýjasti borgarstjóri Reykvíkinga er engu minna karlmenni en fyrirrennari hans. Frá því hafði verið sagt í fréttum að borgaryfirvöld hefðu ákveðið að í ár næmi framlag Reykjavíkurborgar til Mæðrastyrksnefndar 750 þúsund krónum en í fyrra hafði framlagið verið ein milljón króna. Þetta þótti ýmsum vera lækkun um eins og 250 þúsund krónur og kom nú frekar á óvart. En gott og vel, fyrir löngu tímabært að reyna að hemja næstum stjórnlaus útgjöld Reykjavíkurborgar, þó einhverjir hefðu kannski hafið niðurskurðinn annars staðar en hjá Mæðrastyrksnefnd. En semsagt, flestir munu eflaust hafa ímyndað sér að hér mætti aðeins deila um hvort rétt væri að lækka þetta framlag, færri munu hafa búist við að hægt væri að deila um að það væri lækkun að veita 750 þúsund krónur til þess sem áður hefði fengið eina milljón.

En slíkir menn hafa auðvitað gleymt því að nú er Þórálfur Árnason kominn til valda og um leið eru allir aðrir farnir að hugsa skakkt. Þórálfur bendir á að það er tómur misskilningur að framlagið til Mæðrastyrksnefndar hafi verið lækkað. Nýja framlagið er bara fjórðungi lægra en síðasta framlag en þetta tvennt er með öllu óskylt, þó aðrir en Þórálfur hafi kannski ekki áttað sig á því. Eða eins og borgarstjóri segir allramildilegast í DV: „Þetta er styrkur sem fólk þiggur og þakkar fyrir. Styrkur sem er veittur í ár er ekki endilega í samhengi við styrk sem var veittur í fyrra eða verður veittur á næsta ári. Styrkur er ekki eitthvað sem maður á heimtingu á og ekki eitthvað sem maður á að krefjast.“ Og hananú.

Það er ekki einu sinni rangt, að það sé lækkun að veita 750 þúsund krónur þar sem ein milljón var veitt áður. Það er alrangt.

Nú er út af fyrir sig hægt að halda því fram að með því að Reykjavíkurborg ákveði að veita 750 þúsund krónur til Mæðrastyrksnefndar þá hafi borgin þar með aukið um 750 þúsund krónur það fé sem hún hefur samtals veitt til nefndarinnar frá landnámi og fram á ofanverða daga Þórálfs fyrsta. Með slíkri röksemdafærslu þyrfti Þórálfur ekki einu sinni að nema staðar við að neita því að hafa lækkað framlagið um 250 þúsund krónur, hann gæti ekki síður haldið því fram að hann hefði beinlínis aukið framlagið um 750 þúsund krónur. En ætli það sé ekki þannig í huga flests venjulegs fólks að ef aðili eins og Mæðrastyrksnefnd hefur hingað til fengið 1 milljónar króna framlag en fær skyndilega 750 þúsund krónur, þá er verið að lækka framlag um 250 þúsund en ekki hækka það um 750 þúsund!

Ef fleiri en Þórálfur taka hins vegar að nota þessa röksemdafærslu, þá verða seint skorin niður opinber útgjöld. Það vill nefnilega þannig til að fjárlög og fjárhagsáætlanir gilda aðeins um eitt ár og með röksemdafærslu Þórálfs þá eru útgjöld hvers árs sjálfstæð „og ekki endilega í samhengi“ við útgjöld fyrra árs og næsta árs. Ef Reykjavíkurborg myndi til dæmis veita 150 milljónir króna til Leikfélags Reykjavíkur eitt árið en næsta ár þúsundkrónur, þá væri „alrangt“ að segja að framlag borgarinnar hefði lækkað um 149.999.000 krónur. Það hefði í raun hækkað um þúsundkall.

Nú er rétt að ítreka að ekkert er við því að segja ef borgaryfirvöld ákveða að veita minna fé til Mæðrastyrksnefndar en áður hefur verið gert. Það er auðvitað brýnt að skera niður opinber útgjöld og ekki mun Vefþjóðviljinn gagnrýna Þórálf Árnason og félaga ef þau fara loksins að gera það, eftir látlausa eyðslu og skuldasöfnun undanfarin ár. En það væri samt viðkunnanlegra að þau gengjust við því að þau væru að lækka framlög þegar þau fara úr heilli milljón niður í núll komma sjö fimm milljónir. En úr því minnst er á þetta mál, þá mætti til gamans ímynda sér hvernig fjölmiðlar og „átakshópar“ létu ef einhver af hinum væng stjórnmálanna hefði svarað Mæðrastyrksnefnd eins og Þórálfur Árnason, borgarstjóri R-listans. Ef einhver annar stjórnmálamaður hefði hreytt því út úr sér að hér væri bara styrkur sem menn ættu að þiggja og þakka fyrir í staðinn fyrir að vera með kjaft. Ætli slíkur stjórnmálamaður þætti ekki vera „úr tengslum við þjóðlífið“ – já og „búinn að sitja allt of lengi“?

Þórálfur Árnason er búinn að vera borgarstjóri í einn mánuð og 16 daga.