Ætli þær hafi ekki borist um svipað leyti á laugardaginn, tvær fréttir af íslensku fjárhættuspili. Í annarri fréttinni var sagt að maður nokkur hefði orðið svo heppinn að vinna eins og 19 milljónir króna þegar lottó kvöldsins var spilað. Hin fréttin var af manni sem var ekki alveg eins heppinn. Hann hafði verið hnepptur í gæsluvarðhald, grunaður um að hafa staðið fyrir fjárhættuspili í miðborg Reykjavíkur. Til að forðast misskilning þá er rétt að taka fram að ekkert sérstakt í fréttinni benti til að samhengi væri þarna á milli. Hinn handtekni maður mun sem sagt ekki reka hið vikulega fjárhættuspil, „lottó“, heldur er hann grunaður um að hafa framið glæpi sína svo minna bæri á í bakhúsi nokkru í miðbænum.
Og þessi maður er nú kominn í gæsluvarðhald og í gær bættu fjölmiðlar því við fyrri frásagnir sínar að lögreglan hefði „lagt hald á“ þrjár milljónir króna í reiðufé á vettvangi. Ekki er gott að segja hvers vegna lögregla sendir frá sér upplýsingar um slíkt, en varla eru upplýsingarnar komnar annars staðar frá, en sennilega ætlast hún til að þetta verði til þess að mönnum þyki sem gríðarleg undirheimastarfsemi hafi verið stöðvuð. En hvað er það nákvæmlega sem maðurinn er grunaður um? Ef marka má fréttir þá er hann einungis grunaður um að hafa staðið fyrir fjárhættuspili sem aðrir hafi svo stundað. Hann er ekki grunaður um að hafa haft rangt við eða að hafa þvingað börn og gamalmenni til þátttöku. Hann virðist vera grunaður um að gera það eitt sem ýmis fyrirtæki og félagasamtök gera á hverjum degi.
Lottóið sem þúsundir spila í er vitaskuld fjárhættuspil. Sama má segja um íþróttagetraunir og spilakassa í söluturnum. Engin sérstök takmörk eru sett við því hve marga lottómiða hver maður má kaupa. Menn geta, með því að kaupa nógu marga seðla, lagt aleiguna undir í fótboltagetraunum á hverjum einasta degi. Það má meira að segja, með góðum – eða illum – vilja, kalla hlutabréfamarkaðinn og aðrar fjárfestingar til ávöxtunar ákveðið fjárhættuspil. Allt þetta mega menn stunda þó enginn velkist í vafa um að margir hafa eytt mjög um efni fram með þess háttar iðju. En menn eru og eiga að vera fjár síns ráðandi og eiga ekki að vera meðhöndlaðir sem börn fram á fullorðinsaldur. En hvernig stendur þá á því að ýmsar aðrar tegundir fjárhættuspils eru bannaðar og maður situr í gæsluvarðhaldi, grunaður um að hafa skipulagt þær?
Jú jú, menn geta eytt jafnvel öllu sínu við græna borðið. Þess eru dæmi að menn tapi geysilegu fé, jafnvel á einu kvöldi. En þó að sumir kunni sér ekki hóf við veðmálin, á þar með að banna öllum öðrum að stunda þau sér til ánægju, spennu og stundum verulegs ágóða? Menn geta tapað fé á næstum öllu sem þeir taka sér fyrir hendur. Menn geta lagt út í gersamlega fráleitar fjárfestingar, lagt allt sitt í fyrirtæki sem allir aðrir sjá að eiga enga von og svo mætti áfram telja. Fólk á að vera frjálst að slíku. Það á ekki að taka af fólki réttinn til að velja og hafna og ekki ábyrgðina á eigin gerðum. Jafnvel þó sumir spili frá sér allt vit þegar þeim finnst þeir vera í stuði.