Laugardagur 18. maí 2002

138. tbl. 6. árg.

Þrjár samhengislausar spurningar:

1. Hvað líður rannsókn Gíslamálsins? Eins og menn muna kom Gísli Helgason blokkflautuleikari fram á sjónarsviðið þegar mest gekk á í þeim málum sem kennd eru við Árna Johnsen, þáverandi alþingismann, og upplýsti að fyrra bragði að hann sjálfur, Gísli, hefði sem forsvarsmaður hljóðvers Blindrafélagsins ekki gefið viðskipti félagsins og umrædds Árna upp til skatts. Gísli greindi frá þessu til þess að koma höggi á Árna en hvorki Gísli né ákafir fjölmiðlamenn áttuðu sig á því að með þessu braut Gísli lög – en ekki Árni. Undanfarna mánuði hafa ákveðnir fjölmiðlar reglulega þrýst á að Árni verði ákærður fyrir ýmis hugsanleg lögbrot og varð þrýstingurinn slíkur að bæði ríkislögreglustjóri og ríkissaksóknari tóku upp á því að senda frá sér stóreinkennilegar og fordæmalausar fréttatilkynningar af málum þessa sakbornings. Þar sem því verður vart trúað að fjölmiðlamennirnir, og hvað þá umrædd embætti, fari í manngreinarálit, er ekki óeðlilegt að menn spyrji hvað sé að frétta af rannsókn þeirra lögbrota sem Gísli Helgason bar upp á sjálfan sig í útvarpsviðtali síðast liðið sumar. Vissulega var upphæðin ekki há en engu að síður nægði hún til að koma Gísla fremstum að í fréttatíma Ríkisútvarpsins. En þá héldu menn reyndar að höggið myndi lenda á Árna Johnsen.

2. Hefur borgarstjórinn í Reykjavík komið á Reykjavíkurflugvöll? Kannski tók Vefþjóðviljinn rangt eftir. Það væri nefnilega synd að segja að blaðið nennti ætíð núorðið að hlusta af fullkominni athygli þegar núverandi borgarstjóri tekur til máls. En hvernig er það, sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ekki í kastljós-þætti Ríkissjónvarpsins í þessari viku, að hún vildi eina flugbraut burtu af Reykjavíkurflugvelli og þá stæði ein eftir? Þar sem jafnvel núverandi borgarstjóri ætti að vita að þrír mínus einn eru tveir en ekki einn verður vart annað ráðið af þessum ummælum – með áðurgreindum fyrirvara – en borgarstjóri viti ekki einu sinni hversu margar flugbrautir eru á Reykjavíkurflugvelli. En Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til upplýsingar má geta þess hér að brautirnar eru nú þrjár en ekki tvær. Halda menn að fjölmiðlamenn myndu láta svona vanþekkingu liggja milli hluta ef einhver annar ætti í hlut?

3. Má hver sem er segja hvað sem er um nektardansmeyjar? Á dögunum fullyrti læknir nokkur að konur í tiltekinni fámennri starfsstétt gengjust oftar en margar aðrar undir fóstureyðingu. Nú er fóstureyðing væntanlega oftast gerð af öðrum ástæðum en heilbrigðisástæðum og er ástæðulaust að ræða það nánar hér og nú. En upplýsingar – eða innantómar fullyrðingar – um það hvort konur í tilteknum stéttum kjósi frekar en aðrar að gangast undir fóstureyðingu hafa varla mikið gildi út frá læknisfræðilegum sjónarmiðum. Öðru máli gengdi vitaskuld ef einhver tiltekin heilbrigðisvandamál herjuðu frekar á konur af einni stétt en annarri. Upplýsingar eða fullyrðingar eins og hér voru nefndar eru settar fram sem innlegg í þjóðfélagsdeilur til að reyna að koma óorði á tiltekna löglega atvinnustarfsemi sem allskyns óviðkomandi fólki úti í bæ er einhverra hluta vegna mjög í nöp við. Eða hvað myndu menn segja ef læknirinn hefði fullyrt með þessum hætti um einhverja aðra fremur fámenna kvennastétt? Að til dæmis kvenkyns tannlæknar færu oftar í fóstureyðingu en aðrar konur? Eða sjónvarpsfréttakonur? Óperusöngkonur? Kvenkyns alþingismenn?