Vefþjóðviljinn 79. tbl. 20. árg.
Hér var vikið að því fyrir nokkru að það væri ekki endilega víst að það væri erfiðara fyrir ungt fólk að kaupa sína fyrstu íbúð nú en áður þótt umræða um það sé nokkur.
Í erindi sem Björn Brynjúlfur Björnsson hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands flutti á fræðslufundi VÍB í síðustu viku komu fram athyglisverðar staðreyndir um þetta álitaefni.
Í fyrsta lagi er íbúðaverð ekki hærra miðað við laun en oft áður. Þetta má sjá á myndinni hér að ofan.
Þar að auki er aðgengi að lánsfé mjög gott í sögulegu samhengi. Á síðustu 20 árum hefur mögulegt lánshlutfall aðeins verið hærra í fjögur ár en það er nú. Vextir eru sömuleiðis lágir í sögulegu samhengi.
En er þetta þá ekki bara allt miklu betra í nágrannaríkjunum? Nei samkvæmt erindi Björns Bynjúlfs er hlutfall útgjalda til reksturs húseignar næst lægst hér af Norðurlöndunum. Íslendingar eru líklega líklegastir Norðurlandabúa til að búa í eigin húsnæði. Tvöfalt fleiri Íslendingar (78%) en Svíar (39%) búa til að mynda í eigin húsnæði.
Hins vegar nefnir Björn Brynjúlfur einnig að miðborgin sé nú dýrari miðað við önnur hverfi en áður og einnig að verð þar hafi hækkað meira en laun á undanförnum 20 árum. Það getur því verið stærri biti en áður að eignast íbúð í miðbænum.