Á ráðherrafundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem lýkur í dag í Dóha í Katar koma fulltrúar Evrópusambandsins enn á ný fram sem helstu andstæðingar frjálsra viðskipta í heiminum. Íslendingar eiga höggi við ESB vegna ríkisstyrkja í sjávarútvegi. Íslendingar benda réttilega á að ríkisstyrkir í sjávarútvegi leiða til offjárfestingar í útgerð með tilheyrandi ofveiði og brengla viðskipti með sjávarafurðir. Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins er hins vegar rekin sem félagsmálapakki og eins og er svo títt um velferðarkerfi ríkisins þá snúast þau fyrst og fremst um velferð kerfisins sjálfs. Hið sama á við um landbúnaðarstefnu ESB. Ríkisstyrkir og tollmúrar ESB leiða til offramleiðslu og sóunar innan sambandsins. Landbúnaðarstefna ESB er einnig ein helsta hindrunin fyrir því að fátækir bændur í þróunarlöndum geti komið framleiðslu sinni á markað á Vesturlöndum og þar með komið undir sig fótunum.
ESB beitir öllum brögðum gegn fátækum bændum þróunarlandanna. ESB notar tolla, kvóta, niðurgreiðslur og lög um „undirboð“ til að koma í veg fyrir samkeppni bænda og annarra framleiðenda utan ESB. Íslensk stjórnvöld skipa sér á bekk með ESB í landbúnaðarmálum. Hér er rekið félagsmálaráðuneyti landbúnaðarins sem veitir árlega 7 milljörðum króna í búvörustyrki til bænda og íslensk framleiðsla er vernduð gegn erlendri samkeppni með ýmsum innflutningshöftum. Engu að síður eru viðskiptavinir þessa félagsmálakerfis, þ.e. bændurnir sjálfir, í sömu stöðu og svo margir aðrir sem njóta verndar af þessu tagi. Þrátt fyrir alla ríkisaðstoðina, eða öllu heldur vegna hennar, eru íslenskir bændur ein tekjulægsta stétt landsins. Bændur bera því ekki síður skarðan hlut frá borði en neytendur sem fjármagna þessa ríkisstyrki með sköttum og greiða mun hærra verð fyrir búvörur en ella. Svo er því haldið fram, meðal annars af Valgerði Sverrisdóttur fulltrúa Íslands í Katar, að ekki megi leggja þetta kerfi ríkisstyrkja og hafta af í einu vetfangi – vegna bændanna.