Laugardagur 3. nóvember 2001

307. tbl. 5. árg.

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra er stórhuga fyrir annarra hönd og má best sjá þess stað í nýjum sendiráðum Ísland út um allar álfur og lönd. Varla hafði ráðherra snúið heim frá Japan, þar sem hann hafði verið að opna sendiráð, þegar fréttir bárust um að einn af sendiherrum Íslands hefði afhent Khabo Mbeki forseta Suður-Afríku trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í landinu, með aðsetur í Maputo í Mósambik. Nú er vitaskuld gríðarlega mikilvægt fyrir Íslendinga að eiga sendiherra í Maputo sem getur skotist til Pretoríu og gætt hagsmuna Íslendinga þar þegar hann lítur upp úr hagsmunagæslunni í Maputo. Þetta er óumdeilt. Hitt er einnig óumdeilt sem utanríkisráðherra hefur bent á, en það er að kaup Íslands á sendiráði í Japan og annað sem fylgir uppsetningu sendiráðs þar, er þeirra 800 milljóna króna virði sem í hefur verið lagt. Og þá er ekki síður rétt að mikilvægt er að Íslendingar eigi sín eigin sendiráð. Þetta er svo augljóst að Vefþjóðviljinn hefði ekki treyst sér til að rökstyðja þetta án aðstoðar utanríkisráðherra, en um sendiráðsbyggingar Íslendinga sagði hann fyrir nokkrum dögum í Morgunblaðinu: „Ég er jafnframt þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi að stefna að því að eiga sem mest af sínu húsnæði sjálfir. Hér er um fjárfestingu að ræða og við getum hvenær sem er selt þetta húsnæði og leigt annars staðar.“ Þetta er kjarni málsins. Íslendingar eiga auðvitað að kaupa sendiráð fyrir 800 milljónir króna út um allan heim vegna þess að þetta eru fjárfestingar sem hægt er að selja og leigja þá húsnæði undir sendiráðin annars staðar. Það er erfitt að skilja hvers vegna ekki er búið að kaupa hús undir sendiráð í Pretoríu til að eiga þess kost að selja það og leigja síðar annað húsnæði í Jóhannesarborg. Þetta er eiginlega furðuleg yfirsjón.