Ríki og sveitarfélög eyða um 4 krónum af hverjum 10 sem landsmenn afla. Þetta er svimandi hátt hlutfall en vera kann að það sé í raun mun hærra. Það er ekki síður dýrt að kynna sér og fara eftir öllum þeim reglugerðum sem streyma frá hinu opinbera. Eins og Vef-Þjóðviljinn hefur bent á hefur reglugerðum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum fjölgað mjög í seinni tíð. Stjórnmálamennirnir þora ekki að ganga öllu lengra í skattheimtu en hafa snúið sér að því að stjórna lífi okkar með reglugerðum um allt milli himins og jarðar. Það fer vart milli mála að í ráðuneytunum situr hópur af embættismönnum og hraðritar (eða þýðir frá Brussel) látlaust nýjar tilkynningar um það hvernig við eigum að haga okkur. Í b-deild stjórnartíðinda bætast við um 10 nýjar síður af tilskipunum á hverjum virkum degi ársins og ber að þakka að opinberir starfsmenn fá greidd laun fyrir óunna yfirvinnu en sitja ekki um helgar og framleiða meira af þessu. Ýmsir þingmenn virðast einnig líta á það sem skyldu sína og til marks um dugnað að leggja fram frumvarp til laga um eitthvað, bara eitthvað, sem ekki hafa verið sett lög um áður. Skyndilega verður til mikil þörf fyrir heildarlög um þetta eitthvað þótt menn hafi komist ágætlega af fram að því án annarra reglna en gilda almennt um samskipti manna.
Vitanlega eru allar reglurnar sagðar settar með hagsmuni almennings í huga. Í DV í gær er til dæmis rætt við menn sem byggja finnsk bjálkahús hér á landi. Ýmsum þykir notalegt að búa í slíkum húsum og segjast viðmælendur DV ekki anna eftirspurn eftir þeim. Samkvæmt byggingareglugerð, sem sett er til að vernda okkur, verður hins vegar einangra húsin þótt ekki sé þörf á því að sögn smiðanna þar sem bjálkarnir séu næg einangrun. Bjálkinn nýtur sín að sjálfsögðu ekki lengur þegar hann er kominn undir einangrun. Því er brugðið á það ráð að setja sérstaka klæðningu sem líkist bjálkunum yfir einangrunina. Við þetta hækkar byggingarkostnaður. Þökk sé reglugerðinni, sem eins og allar aðrar reglugerðir er sett er til að gæta hagmuna almennings.