Föstudagur 9. apríl 1999

99. tbl. 3. árg.

Þeir sem eru andvígir frekari virkjunum á hálendi Íslands eru oftar en ekki þeir sem hafa mesta drauma um að „vetnisvæða“ Ísland. Það er draumur þeirra vetni leysi olíu af hólmi í samgöngnum, flutningum og fiskveiðum. Þetta er út af fyrir sig fallegur draumur en fyrst þarf að framleiða vetnið og það er gert með rafmagni. Ekki er í fljótu bragði hægt að sjá að rafmagnið kæmi annars staðar frá en úr virkjunum á hálendi Íslands. Nema menn vilji framleiða rafmagnið sem þarf til að framleiða vetnið með dieselrafstöðvum!

Stórir bílar eru öruggari en litlir, sagði læknir í sjónvarpinu í gærkvöldi. Fólk í sem lendir í árekstri á stórum bíl slasast minna og lætur síður lífið en farþegar í litlum bíl. Stórir bílar eru ekki aðeins sterkari heldur er öryggisbúnaður einnig oft betri í stórum bílum. Ríkisvaldið refsar hins vegar mönnum með háum vörugjöldum fyrir að kaupa stóra og örugga bíla. Þau „rök“ eru oft notuð til að banna mönnum eitt og annað að það spari hinu ríkisrekna heilbrigðiskerfi svo og svo mikið. Nú mætti sennilega spara í heilbrigðiskerfinu með því að gera fólki hægara um vik að kaupa stóra og örugga bíla. Ekki þarf að banna neitt heldur bara lækka skatta.

Undanfarið hefur nokkuð verið um að lesendur Vef-Þjóðviljans sem búsettir eru utan Íslands hafi haft samband við blaðið og spurt hvort Vef-Þjóðviljinn hafi upplýsingar um kosningu utan kjörfundar vegna væntanlegra Alþingiskosninga. Vef-Þjóðviljinn vill því geta þess, að slík kosning fer nú fram í öllum sendiráðum og hjá flestum ræðismönnum Íslands. Kjósendur verða svo sjálfir að sjá um að koma atkvæði sínu til skila hér á Íslandi en kosningaskrifstofur flestra stjórnmálaflokkanna munu taka það að sér fyrir þá sem þess óska.