Þeir sem enn hafa ekki hent miðvikudags-Morgunblaðinu ættu ef til að hafa upp á því og kíkja á eina grein sem hugsanlega hefur farið fram hjá þeim. Greinin „Gengisfall tilfinninganna“, eftir Ragnhildi Kolku meinatækni, verðskuldar nefnilega ýtarlegan lestur og Vefþjóðviljann dauðlangar að skrifa hana einfaldlega upp og birta í heild, mönnum til umhugsunar. Það verður þó ekki gert þó að hugleiðingar Kolku séu athyglisverðar og eigi erindi við marga. Hlutdrægir fjölmiðlamenn, taugaspenntir áróðursmenn og gasprarar í geðshræringu fá til tevatnsins hjá Ragnhildi Kolku og grein hennar er þörf, tímabær og þegin með þökkum.
Velmegun þjóðarinnar varð sýnileg á sjöunda áratugnum. Þá spruttu blómabörnin líka upp. Mikið var reykt, enn meira talað og athafnagleðin fékk útrás í „frjálsum“ ástum og mótmælastöðum. Arfur þessarar kynslóðar er nú sýnilegur í þeirri næstu. Yfirlýsingagleðin óslökkvandi og nú halda engin bönd. Útvarp og sjónvarp eru þeirra miðlar. |
Stöðugt áreiti verður að vera til staðar svo fjölmiðlafólk nái að halda athyglinni og réttlæta þannig tilvist sína. Fréttatímar eru innblásnir í leit að heimsósóma. Gott, ef hægt er að klína honum á stjórnvöld. Staðreyndir eða staðfestingar flækjast ekki fyrir. Tökum tvö lítil dæmi úr þessari viku. Umfjöllun RÚV um þörf löggæslu vegna komu hóps Falun Gong-mótmælenda til Íslands. Heimildarmaður ónafngreindur. Ríkislögreglustjóri kemur leiðréttingu á framfæri um að fullt samráð hafi verið um löggæslumál. Fréttamaður áréttar, að fréttastofan beri fullt traust til heimildarmanns síns, sem áfram er nafnlaus. Einu sinni kölluðust óstaðfestar fréttir bara slúður. |
Hitt dæmið sýnir aðhaldsleysið í viðtölum. Þingmaður stjórnarandstöðu tjáir sig um innanbúðarvanda Byggðastofnunar. Hann taldi þetta birtingarmynd átaka milli stjórnarflokkanna. Heima sat ég með stórt spurningarmerki á andlitinu og fékk engan botn í fréttina. Hvað stóð á bakvið fullyrðinguna sem þarna kom fram? Var þetta ekki mál ráðherra, þingmanns úr sama flokki og handplokkaðs verkamanns ráðherrans? Hverju missti ég af? |
Já, hver kannast ekki við næstum endalaus dæmi eins og þessi? Hver hefur ekki setið og horft á svokallaða fréttamenn útvarpa ótrúlegustu staðhæfingum án þess að spyrja nokkurra skynsamlegra spurninga. Oft reyna þeir að vísu að spyrja þá sem nú eru í meirihluta á Alþingi gagnrýninna spurninga, en það er þá aðallega um það af hverju þeir eyði ekki meiri peningum í hitt eða þetta. Sjaldan eða aldrei er hins vegar minnst á kostnað við neitt sem máli skiptir, og verður það þeim mun meira áberandi þegar fréttamenn öðlast skyndilega ofuráhuga á kostnaði við þau málefni sem þeim eru persónulega hugstæð. Hvaða fréttamaður hefur áhuga á 3,5 milljarða króna auknum kostnaði við fæðingarorlof eða á því að áætlunum um þann kostnað skeiki um eins og einn og hálfan milljarð króna á ári? Hvaða fjölmiðlamaður hefur áhuga á milljarða kostnaði við byggingu tónlistarhúss? Hvaða fjölmiðlamaður hefur áhuga á sívaxandi útgjöldum til heilbrigðis- og menntamála? Enginn? En menn mega vera vissir um það að þeir vilja allir vita hvað það kostar að einkavæða Landsbankann. – En nóg um þetta að sinni, víkjum frekar aftur að grein Ragnhildar Kolku.
Sem fjórða valdið virðast mér fréttastofurnar komnar út á hálan ís. Múgsefjun virðist vera markmiðið, þar sem spilað er á taumleysi tilfinninga fólks sem heldur að heimurinn sé krásaborð þess. Falun Gong bjargaði þessari viku. Í vikunni þar áður fór allt úr skorðum vegna ESB-skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Utanríkisráðherra lýsir vantrú á einhverjar tölur, án þess að tilgreina nánar. Það dugði þó til að vindhanarnir drógu þá ályktun að háskólastofnunin væri bara kusk í vasa Davíðs Oddssonar. |
Nei gasprarar eru sjaldan beðnir um innistæðu fyrir gjammi sínu eins má sjá af látlausum viðtölum við forystukonur stjórnarandstöðunnar sem þreytast ekki á að fullyrða að „auðvitað“ sé eitthvað svona eða hinsegin. Aldrei hvarflar það að nokkrum fréttamanni að spyrja af hverju það sé „auðvitað“ svoleiðis. Svona viðmælendur eru aldrei spurðir hvað þeir hafi fyrir sér í gjamminu. Enda veit fréttamaðurinn að þá yrði engin frétt. Þá yrði ekkert til að setja í fréttayfirlitið. Og ef gasprarinn fær að vaða uppi, þá er líka von til að fá daginn eftir viðtal við einhvern annan til þess að andmæla honum og þannig nær fréttamaðurinn að dekka tvo fréttatíma án þess að hafa þurft að hugsa svo mikið sem eina hugsun sjálfur.