Ríkissjónvarpið ákvað í gærkvöldi að ræða nú sjávarútvegsmál og nýjan dóm Hæstaréttar þeim tengdan og fékk til þess þrjá óháða aðilja: Hinn hófsama prófessor Þorvald Gylfason, hinn ekki síður virta fræðimann Gísla Pálsson (sem mun vera jafn hámenntaður og eiginkonan, Guðný Guðbjörnsdóttir) og Kristin H. Gunnarsson fyrrverandi Alþýðubandalagsmann og núverandi framsóknarmann.
Þorvaldur Gylfason beitti ýmsu fyrir sig í þættinum og verða hér ekki eltar ólar við það að öðru leyti en því, að Vefþjóðviljinn leyfir sér að nefna eitt lítið atriði til gamans. Fræðimaðurinn Þorvaldur sagði í þættinum, að Hæstiréttur hefði með dómi sínum á dögunum veitt löggjafanum þyngra högg en hann hefði gert frá árinu 1943 en þá hefði rétturinn ógilt lög sem sett hefðu verið til að hindra útgáfu Halldórs Laxness (og Einars Ragnars Jónssonar og Stefáns Ögmundssonar þó Þorvaldur hafi nú ekki nefnt þá) á íslenskum fornsögum. Þarna hefði Hæstiréttur ógilt lög og sama myndi hann hafa gert á dögunum.
Þessi var semsagt kenning Þorvaldar. Þó að ýmsir treysti kannski einkum prófessorum í viðskiptafræði til lögskýringa þá þykir öðrum réttara að leita annað. Um þennan sama dóm og Þorvaldur nefndi hefur Ármann Snævarr, fyrrverandi lagaprófessor og forseti Hæstaréttar skrifað. Og segir þar meðal annars: Í dóminum kemur einnig fram, að Hæstiréttur fellir ekki lögin eða einstök ákvæði úr gildi fyrir sig. Þau standa að formi til áfram. Ármann bætir því að þó ekki sé það líklegt þá sé alveg hugsanlegt að lyktir máls yrðu aðrar, ef hliðstætt dómsmál kæmi til Hæstaréttar að nýju.
Þessi orð prófessors Ármanns mættu verða umhugsunarefni ýmsum þeim sem gapað hafa um það að Hæstiréttur hafi fellt hin eða þessi lög úr gildi eða að löggjafanum beri nú að að breyta lögum vegna dóma réttarins. Menn mættu alveg gera sér grein fyrir að Hæstiréttur fellir ekki lög úr gildi þótt hann kjósi stundum að notast í einstökum málum við aðrar réttarheimildir.
Vafalaust hafa margir sjónvarpsáhorfendur í gærkvöldi átt von á því að háskólamennirnir Þorvaldur og Gísli myndu aldeilis taka þingmanninn Kristin í kennslustund um mesta óréttlæti Íslandssögunnar en prófessorarnir hafa varið ómældum tíma á kaupi hjá almenningi við að rannsaka þetta mikla óréttlæti. Raunin varð hins vegar sú að Þorvaldur og Gísli vöru í vörn allan tímann enda hvorugur með ákveðin svör við því hvernig hefði átt að úthluta veiðheimildum í upphafi né hvernig ætti að breyta krefinu nú!